Spurt og svarað

19. febrúar 2019

Brjóstagjöf eftir erfiða fyrri reynslu

Ég er komin 25 vikur á leið með annað barn. Allt gengur mjög vel, ég er mjög spennt fyrir komu barnsins en jafnframt mjög kvíðin fyrir að komandi brjóstagjöf muni ekki ganga upp. Brjóstagjöfin síðast gekk vel til að byrja með en svo fór að halla undan fæti og hún fór að ganga brösuglega (sár á geirvörtum, stálmi o.fl.) Einnig spila aðrir þættir þar inn í (kvíði, óöryggi, engin "kennsla" frá ljósmóður í heimavitjun, latt barn, keisarafæðing, flatar geirvörtur er svona það helsta). Ég virtist þó alveg framleiða nóg af mjólk og var gjörsamlega að springa eins og er sagt og dugði til dæmis ekkert annað en þykk taubleia innan undir brjóstahaldarann á næturnar til þess að rúmið yrði ekki á floti. Hjúkrunarfræðingurinn sem kom heim þegar barnið mitt var 2 vikna sagði orðrétt að ég væri ekki að næra barnið mitt nóg því henni fannst það ekki hafa þyngst nógu vel (þarna var það þó komið 150 gr yfir fæðingarþyngd sína en það fæddist rúmar 12 merkur. Það er kannski ekki mikið en barnið var allavega ekki að léttast). Hjúkrunarfræðingurinn kom ekki vel fram við mig, upplýsti okkur foreldrana ekki neitt og skildi mig eftir í hálfgerðu áfalli satt best að segja. Næstu dagar á eftir voru mjög erfiðir andlega og ég upplifði mig ekki nógu góða móður því ég væri ekki að næra barnið mitt - og auðvitað hlyti ég að vera sú eina svo ég ræddi þetta ekki við neinn. Þegar barnið var um 4 vikna gamalt gafst ég upp á brjóstagjöfinni vegna þess að ég grét mikið í hvert skipti sem ég lagði barnið á brjóst. Ég var lengi að vinna mig út úr þessu en ég er í góðu jafnvægi núna og tilbúin til þess að gera allt sem ég get til að undirbúa mig sem best og er ég staðráðin í að láta næstu brjóstagjöf ganga upp. Ég er búin að ræða þessa reynslu við ljósmóðurina mína í mæðraverndinni núna og hún skráði hana í skýrsluna mína. Mig langaði þó að leita til ykkar og fá ráðleggingar um hvað þið mælið þið með að ég geri núna og næstu vikur fram að fæðingu til þess að undirbúa mig sem best? Einnig hvað ég geti gert á fyrstu dögunum eftir að barnið kemur í heiminn? Láta það nær stöðugt vera á brjósti til þess að örva og mynda góð tengsl? Meina gestum að koma í heimsókn svo við getum náð þessum mikilvægu tengslum og verið sem mest húð við húð? Ég er ekkert byrjuð að leka broddi og lak ekkert á meðgöngunni síðast. Getur það verið merki um að ég muni ekki framleiða góða mjólk þegar að því kemur? Get ég tekið mjólkuraukandi töflur eða drukkið mjólkuraukandi te á meðgöngunni til að örva eitthvað kirtlana eða kemur þetta allt saman eftir fæðingu? Er eitthvað í töflunum eða te-inu sem getur verið skaðlegt fyrir barn í móðurkviði? Er eitthvað sem ég get gert núna til þess að reyna að fá geirvörturnar betur út? Ég fór í aðgerð á geirvörtunum fyrir meira en áratug síðan vegna innfallinna geirvartna svo það hefur verið átt við þær. Getur það haft áhrif þó að brjóstagjöfin hafi gengið vel til að byrja með? Er möguleiki á að hitta brjóstagjafaráðgjafa fyrir fæðingu (ekki hópnámskeið) eða mun það ekki gagnast neitt þegar ekkert barn er komið á brjóst? Ég vona að þið getið unnið ykkur út úr þessari spurningasúpu minni :)

Heil og sæl, þú þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að framleiða ekki nóg af mjólk því miðað við hvernig þú lýsir fyrri gjöf þá hefur þú haft alveg næga mjólk. Það besta sem þú gerir er að vera afslöppuð og róleg og leyfa barninu að sjúga eins og það vill til að byrja með. Barnið lærir á þínar geirvörtur og ef þær eru eitthvað smá innfallnar þá verður það hugsanlega aðeins seinlegra í byrjun að fá barnið til að taka en það er engin stór hindrun enda sagðirðu að síðast hefði gjöfin gengið vel í upphafi. Þú skalt reyna að fá ljósmóður sem er lika brjóstagjafaráðgjafi í heimaþjónustu. Svo getur þú beðið ljósmóðurina þína í meðgönguverndinni um upplýsingar um brjóstagjafaráðgjafa og þú getur haft samband við hana til að sjá hvort að viðtal fyrir fæðingu gagnist þér. Það þarft þú að borga sjálf. En í stuttu máli þá skaltu ekki hafa neinar fyrirfram áhyggjur, það er þó alltaf gott að undirbúa sig eins vel og hægt er eins og þú ert að gera. Gangi þér vel. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.