Minni peli, meiri matur og vatn

21.03.2019

Góðan dag. Nú er ég með eina 8 mánaða á Kanarí eyjum og missum við af næstu skoðun þar til í apríl, aukþess að búa út á landi í þokkabót. Ég er búin að skoða mikið á netinu varðandi magn pela á þessum aldri ásamt því að mér finnst eins og það sé verið að meina að hætta alveg með pelann og færa mjólkina þá yfir í stútkönnu? Hún er búin að vera á þurrmjólk síðan 3 mánaða og heldur enn fast í sína pela á daginn og lítur lítið við grófari mat ef hann er ekki fínn stappaður. Sem ég vil auðvitað breyta, minka pelann og meiri mat og vatn. Nema hún bara lýtur ekki við vatni hvort sem það er í pela eða stútkönnu. Mín helsta spurning er hvað er best að gera í svona stöðu, þegar að barn neytar að drekka vatn? Á ég að reyna hætta með pelana og byrja meira með stútkönnu? Hún drekkur 180ml í hvern pela og alveg 4-5 pela á dag. Tek samt fram að ég reyni eftir minni bestu getu að gefa henni fasta fæðu á undan, nokkrum sinnum á dag en það er alltaf pláss fyrir pela.

Heil og sæl, það er ekkert eitt rétt í þessu. En auðvitað er lokatakmark að hætta við pela og borða hollan og fjölbreyttan mat og drekka úr glasi. 4-5 pelar á dag er talsvert og það á að vera hægt að draga úr því í rólegheitum. Ég ráðlegg þér að fækka pelum um einn og láta hana aðlagast því og svo fækka um annan þangað til einn til enginn er eftir. Ef hún á mjög erfitt með það er hægt að minnka magnið í pelanum smám saman þar til mjög lítið er í hverjum. Endilega venja hana á stútkönnuna en hafðu ekki áhyggjur af vatnsdrykkju það kemur í rólegheitum. Taktu þetta bara föstum tökum en gefðu þér tíma, þetta kemur allt saman. Gangi þér vel.