Fyrsti grautur hægðir og svengd

07.04.2019

Ég er byrjuð að gefa 5 mánaða syni mínum hirsigraut einu sinni á dag með smá ólívuolíu í skv. Ráði frá ungbarnaverndinni. Hann er að þyngjast hægt og virðist ekki vera mettur þrátt fyrir að vera mikið á brjósti. Grauturinn hefur farið vel í hann og hann vildi fá meira og meira strax. Eftir að hann hefur byrjað að fá grautinn þá hafa hægðirnar hans verið linari en vanalega og hann hefur verið að rembast við það að hafa hægðir (annars góður í maganum). Gæti verið að ég sé að gefa honum of mikla fitu eða einfaldlega of mikinn graut í einu? Svo annað eftir að hann byrjaði á grautnum er hann miklu svengri og liggur miklu meira á brjósti. Eykst matarlystin mikið við að fá graut? Ætti ég að fara að gefa honum grautinn kvölds og morgna fyrst hann er svona svangur?

Heil og sæl, nú er hann að komast á þann aldur að fara að borða meira og meira. Mér heyrist miðað við hvernig þú lýsir honum að hann sé alveg tilbúinn í að fara að fá mat með brjóstinu. Þér er alveg óhætt að fara að gefa graut tvisvar á dag. Ef hann dafnar vel og er ánægður þá er allt gott. Gangi ykkur vel.