Stingir í leggöngum á þriðja þriðjungi

15.04.2019

Ég er gengin 32 vikur með mitt annað barn og hef fundið fyrir óþægilegum stingjum í leggöngum (leghálsi) í allan dag. Þetta minnir svolítið á einkenni blöðrubólgu þegar maður er að pissa nema þessir stingir eru stöðugir og einmitt ekki þegar ég er að pissa. Ég hef auk þess fundið öðruvísi hreyfingar hjá barninu, ekki beint minnkaðar, en samt ekki jafn kröftugar og þær hafa verið hingað til. Er eitthvað samasem merki þarna á milli? Eitthvað sem ég þarf að láta skoða? Ég var í skoðun fyrir viku síðan vegna aukinna samdrátta (án verkja) og þá var leghálsinn í góðu lagi (ekki styttur og ekki farinn að opnast). Kollurinn var þó kominn neðarlega í grindina. Þvagið er hreint skv ræktun og sýni frá leggöngum/leghálsi var hreint einnig þannig sýking er líklegast ekki orsök. Hver gæti verið möguleg skýring á þessum einkennum?

Heil og sæl, mér dettur helst í hug að barnið sé búið að skorða sig og liggi þungt niður á leghálsinn. Þá getur þér hugsanlega fundist hreyfingarnar öðruvísi þar sem staða barnsins hefur breyst. Fyrst allt kom vel út fyrir viku er tæplega þörf á skoðun nema ef að hreyfingarnar eru minnkaðar. Gangi þér vel.