Sykurþolspróf

07.02.2011

Sælar.

Ég hef spurningu sambandi við sykurþolspróf og meðgöngusykursýki. Þannig er mál með vexti að ljósmóðinir mín benti mér á að það væri sniðugt fyrir mig að panta tíma í sykurþolspróf og það er búið að gera það en ég var að spá hvort það væri kannski óþarfi. Ástæða þess að hún vill senda mig er að síðasta barnið mitt var 57cm og næstum 20merkur. En eftir að ég skoðaði hér link um meðgöngusykursýki á síðunni ykkar finnst mér ólíklegt að ég sé með meðgöngusykursýki. Það er til dæmis
engin í ættinni sem hefur fengið slíkt né venjulega sykursýki, barnið mitt fékk ekki gulu, né blóðsykurfall eftir fæðingu, aldrei fannst sykur í þvagi á síðustu meðgöngu, ég er ung og á alls ekki við offitu að stríða, fæddi ekki fyrir tímann, fékk ekki meðgöngueitrun og síðan var ég frekar með of lágan blóðþrýsting heldur en of háan. Þótt ég sjálf hafi ekki verið stór þegar ég fæddist og er ekki í dag þá er pabbi minn, tengdapabbi og maðurinn minn allir yfir 1.90 á hæð. Er óþarfi að ég fari í þetta próf þar sem engin einkenni voru til staðar nema stórt barn. Barnið mitt er ennþá stórt í dag, semsagt heldur sinni kúrfu þannig að hann fæddist ekki bara stór.Sæl.

Samkvæmt þeim leiðbeiningum frá landlækni sem farið er eftir í mæðravernd, ættu konur sem hafa fætt stórt barn áður að fara í sykurþolspróf á næstu meðgöngu.  Það að allt annað hafi verið í lagi er ekki sönnun á því að þú hafir ekki verið með meðgöngusykursýki þá.  þess vegna er ljósmóðirin þín að ráðleggja þér þetta. 

Þú hefur rétt á að afþakka ef þú vilt ekki fara.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. febrúar 2011.