Sykurþolspróf í lok 38. viku

06.04.2012
Ég á að fara i sykurþolspróf nú í lok 38.viku í fyrsta sinn. En fyrir misskilning fór ég aldrei fyrr. Ástæðan er sú að ég átti 4,5 kg barn síðast, ég er 38 ára. Það hefur ekki mælst sykur í þvagi. Svo mín spurning er hverju „bjargar“ það að fara þetta próf núna? Eg bý í Danmörku.

Sæl og blessuð!

Ef svo ólíklega vill til að þú greinist með sykursýki núna í lok meðgöngunnar þá þýðir það breytingar á mataræði og aukið eftirlit það sem eftir er meðgöngunnar. Ef til vill verður fæðingin sett af stað fyrr en ella og svo verður aukið eftirlit í fæðingunni hvort sem hún fer sjálfkrafa af stað eða ekki. Síðast en ekki síst verður aukið eftirlit með barninu eftir fæðingu vegna hættu á blóðsykurfalli. Ef þú greinist ekki með sykursýki er gott að fá það staðfest og þar með er það slegið út af borðinu og ekki meiri áhyggjur af því á þessari meðgöngu.

Vona að allt gangi vel hjá þér

Góðar kveðjur frá Íslandi,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. apríl 2012.