Sykurþolspróf og hátt BMI

19.12.2011

Sæl!


Ég hef verið að velta fyrir mér sykurþolsprófum. Ég verð send í sykurþolspróf þar sem BMI er yfir 30, er 31, en þetta er eini áhættuþátturinn. Ég á barn fyrir og sú meðganga og fæðing gekk eins og í sögu, ég fór þá í svona próf sem kom mjög vel út, þetta var fyrir tæpum 3 árum. Hversvegna er ekki litið meira til fyrri meðgöngu ef allt var eðlilegt við hana og hvort það séu einhver merki um sykur í þvagi eða annað þess háttar, áður en tekin er ákvörðun um sykurþolsprófið.


Komdu sæl!


Rannsóknir hafa sýnt að hátt BMI er stór áhættuþáttur fyrir sykursýki í meðgöngu og því voru þessar vinnureglur settar.  Sykur í þvagi kemur ekki alltaf fram þó kona sé með sykursýki svo það er ekki nákvæm mæling.  Það að ekki var sykursýki í síðustu meðgöngu þrátt fyrir hátt BMI segir ekki til um það að sykursýki verði ekki í þessari meðgöngu.  Því verður að gera prófið á hverri meðgöngu. Hinsvegar hefur þú rétt á að neita prófinu ef þú ert mjög ósátt og berð þá ábyrgð á þessu alfarið sjálf.


Kveðja,


Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
19. desember 2011.