Þriggja mánaða og svefn

10.07.2019

Halló Nú er ég með eina sem er tæplega þriggja mánaða, hún hefur alltaf sofið vel á næturnar og tekið góða dúra á daginn. Við höfum verið að byrja að reyna byggja upp rútínu en núna hefur hún alveg tekið uppá því að sofa lítið sem ekkert á daginn, hún nær kannski að sofa í tvo til þrjá tíma í heildina frá 9 á morgnana til 9 á kvöldin, og vill aðeins láta halda á sér og ganga um gólf á daginn pg er frekar óróleg mest allan daginn en sefur svo áfram vel á nóttunni frá svona 9 á kvöldin til 7 á morgnana og vaknar einu sinni til að drekka. Því langaði mig að spyrja hvort þetta sé alveg eðlilegt að hún sofi svona lítið á daginn? eða er þetta eitthvað sem ég verð að skoða betur og reyna að fá hana til að sofa meira?

Heil og sæl, svefnmunstrið breytist oft um 3-4 mánaða aldurinn. Hugsanlega þarf hún orðið minni svefn á daginn og vill fara að skoða meira og fylgjast með í kringum sig. Fyrst hún sefur vel á næturnar ætti ekki að vera neitt sem veldur henni óþægindum því að þá væri það líka á næturnar. Það er aðeins einstaklingsbundið hve mikið börn þurfa að sofa svo að þú skal svolítið láta hana ráða því sjálfa hvað hún sefur á daginn sérstaklega þar sem nætursvefninn er góður. Líklega er þetta bara þroskamerki á henni. Gangi ykkur vel.