Ending á bólusetningu fyrir hlaupabólu

21.07.2019

Góðan dag, Ég hef aldrei fengið hlaupabólu og fékk það staðfest árið 2012 með blóðprufu að ég var ekki með nein mótefni fyrir henni, svo ég fór í kjölfarið í bólusetningu sem voru 2 skipti árið 2012. Ég lét síðan bólusetja dóttur mína sem er í dag 2 ára. Hjúkrunarfræðingurinn sem bólusetti hana sagði við mig að ég þyrfti að láta ath þegar 7 ár eru frá bólusetningunni minni hvort hún væri ennþá virk því þessi bólusetning væri ekki ævilöng. Nú er ég ólétt og komin 7 vikur á leið, við dóttir min erum búnar að vera mikið undanfarnar 2 vikur með frænku hennar á sama aldri sem er núna með hlaupabólu og kom fyrsta bólan í ljós eftir að hún vaknaði af lúr sem ég svæfði hana í. Mig langar því að athuga hvort hægt væri að fá áreiðanlegt svar varðandi endingu þessarar bólusetningar? Ég hef reynt að lesa mig aðeins til um hana á netinu og sé hvergi talað um að maður þurfi að endurnýja hana eftir x mörg ár. Ég er líka að hugsa hvort ég ætti að fá blóðprufu strax til þess að láta athuga virkni bólusetningarinnar eða hvort ég ætti að bíða þar til ég er send í blóðprufuna eftir fyrstu heimsókn í mæðraverndina og láta ath þetta í leiðinni. En bólusetningin var virk árið 2016 þegar ég var ólétt af stelpunni minni, ég lét athuga það þá. Nú er ég svo spennt að vera orðin ólétt aftur en er að hugsa hvort ég ætti að draga úr væntingunum ef þetta skyldi síðan valda fósturláti hjá mér.

Heil og sæl, það er ekki vitað með vissu hvað virkni bóluefnisins er löng hjá fullorðnum sem eru bólusettir. Hjá börnum er það 7 ár. Það er því ekki hægt að vita með vissu hvort þú hafir mótefni nema með blóðprufu og þú skalt biðja um að láta athuga þetta þegar þú ferð í blóðprufur. Gangi þér vel.