Mjólkurframleiðsla á kvöldin

10.08.2019

Sæl, ég á einn 6 vikna son sem er einungis á brjósti. Hann hefur verið að þyngjast mjög vel og er hann yfirleitt vær. Fyrir tveimur vikum byrjaði hann hins vegar að verða frekar óvær á brjósti á kvöldin. Á kvöldin hefur hann litla þolinmæði að bíða eftir mjólkurlosunarviðbragðinu. Þegar mjólkurlosunarviðbragðið er búið (yfirleitt er það frekar stutt á kvöldin) verður hann frekar æstur og byrjar hann að rífa í geirvörtuna með munninum, byrjar að rembast og verður rauður í andlitinu af æsingi og grætur þegar ég tek hann af brjóstinu. Ég hef reynt að hafa hann svona á brjóstinu en ég gafst upp á því þar sem hann meiðir á mér geirvörturnar. Yfirleitt tek ég hann af brjóstinu þegar hann byrjar að verða órólegur og læt pabba hans fá hann eða gef honum snuð og við það róast hann alltaf. Svo býð ég honum aftur brjóstið þegar smá tími hefur liðið (aldrei lengur en klukkutími) því þá hefur "safnast" smá mjólk og mér finnst mjólkurlosunarviðbragðið koma fyrr. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af eða er eitthvað annað sem ég get gert í þessari stöðu? Fyrst hélt ég að væri með litla mjólk í brjóstunum en síðan þetta byrjaði þá hefur hann þyngst um 340gr á einni viku og 280gr hina vikuna. Ég er hins vegar alltaf stressuð um að hann sé sársvangur og hann sé að fá of lítið á kvöldin og þess vegna láti hann svona illa! Áður fyrr gat hann legið endalaust á brjóstinu á kvöldin og drukkið í rólegheitunum.

Heil og sæl, hafðu ekki áhyggjur af þessu. Hann fær greinilega meira en nóg að borða miðað við þyngdaraukninguna. Mér sýnist þú alveg vera búin að finna út hvað virkar og fyrst hann róast við að fá snuðið hjá pabba sínum ertu í góðum málum. Gangi ykkur vel.