Blæðingar eftir fæðingu oo

13.08.2019

Mig langaði að spyrja út í blæðingar eftir fæðingu. Ég er með 3,5 mánaða barn, fyrsta barn, og eftir úthreinsun hófust blæðingar ca mánuði síðar og hafa verið reglulegar og eru núna frekar miklar (meiri en voru áður en ég varð ófrísk). Barnið er eingöngu á brjósti og þess vegna kom mér á óvart að hefja strax blæðingar? Er það ekki algilt að konur fari ekki á blæðingar fyrr en eftir að brjóstagjöf lýkur? Langaði líka að spyrja út í eftirskoðun hjá kvensjúkdómalækni en ég fór ekki í hana þar sem mér fannst engin ástæða til þess. Mæliði með því að fara þó svo maður finni ekki fyrir neinu og telji allt eðlilegt? Bestu kveðjur og þakkir.

Heil og sæl, það er mjög einstaklingsbundið hvenær konur fara á blæðingar eftir fæðingu. Það er vissulega rétt að full brjóstagjöf dregur úr líkum á að blæðingar hefjist fljótt eftir fæðingu en þó eru alltaf einhverjar sem byrja strax á blæðingum. Það er alveg eðlilegt að byrja strax og líka þó að margir mánuðir líði. Það er engin skylda að fara í eftirskoðun ef ekkert er að angra þig og þú ert hraust. Það gæti þó verið skynsamlegt að huga að getnaðarvörnum amk. ef þú ætlar ekki að hafa stutt á milli barna. Gangi þér vel.