Hreyfa við belg/keisari

30.08.2019

Góðan daginn, Mig langaði til þess að forvitnast. Er einhver fylgni á milli þess að láta hreyfa við belgnum og enda í keisaraskurði? Annað, getur það valdið barninu streitu eða óþægindum þegar hreyft er VIð belgnum og þá til dæmis aukin hætta að barnið hafi hægðir i legvatnið? Síðasta sp. Er slæmt ef barnið er lengi í grænu legvatni ef það missir hægðir í vatnið? Kæra þakkir fyrir frábæran vef :)

Heil og sæl, mér vitanlega eru ekki tengsl milli þess að hreyfa við belg og keisaraskurðar en hins vegar getur það að losa um belgi valdið óþægindum og verkjum án þess að fæðing fari í gangi. Ekki er talið að belgjalosun valdi barninu óþægindum. Það fer eftir ýmsum þáttum hvort slæmt er fyrir barn að vera í lituðu legvatni. Stundum er ástæða þess að legvatn er litað fósturstreita en einnig aukast líkur á að barn kúki í vatnið því lengri sem meðgangan er og er þá um þroskamerki að ræða en ekki streitu. Það er því ekkert eitt einfalt svar til við síðustu spurningu þinni og ég ráðlegg þér að ræða málið við ljósmóðurina þína ef þú vilt frekari útskýringar. Gangi þér vel.