Tea tree olía

28.09.2010

Sæl!

Mig langar að vita hvort að það sé óhætt að nota Tea tree olíu á meðgöngu? Hef heyrt að hún sé góð við t.d. þrymlabólum sem ég er gjörn að fá og þær aukast á meðgöngunni. Þessi olía er notuð útvortis á sýkt svæði.


Sæl og blessuð!

Það þarf að fara varlega í að nota ilmkjarnaolíur á meðgöngu og almennt er ekki mælt með notkun þeirra á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Vissar ilmkjarnaolíur geta gagnast við ýmsum kvillum á meðgöngu og geta hjálpað konum í fæðingu t.d. með því að auka slökun og draga úr kvíða og ótta. Ilmkjarnaolíur gagnast einnig við ógleði og uppköstum í fæðingu og draga úr þörf á annarri verkjameðferð.

Tea tree er ilmkjarnaolía sem hefur sótthreinsandi verkun og verkar á bakteríur, sveppi og vírusa. Tea tree olíuna er óhætt að nota útvortis á meðgöngu t.d. til að setja á bólur eins og þú nefnir. Tea tree olíuna  ætti ekki að nota í fæðingu vegna þess að hún getur hugsanlega valdið slökun í leginu. Tea tree olían getur valdið húðbólgum við langvarandi notkun.

Það er rétt að nefna það að ilmkjarnaolíur innihalda mjög virk efni og því ætti aldrei að taka inn ilmkjarnaolíur á meðgöngu. Að sama skapi geta  ilmkjarnaolíur verið varasamar fyrir börn og ætti því að geyma þar sem börn ná ekki til. Þegar ilmkjarnaolíur eru notaðar á meðgöngu eru þær t.d. notaðar í nuddolíu, settar út í bað eða með því að lykta af þeim.  Eins og áður segir þarf að fara varlega, nota litla skammta og vera viss um að óhætt sé að nota tiltekna ilmkjarnaolíu á meðgöngu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. september 2010.

Heimildir
Tiran, D. (2000). Clinical aromatherapy for pregnancy and childbirth (2. útg.). London: Churchill Livingstone.
Tiran, D. (2004). Implementing Aromatherapy in Maternity Care. Chatham, Expectancy Ltd.