Spurt og svarað

28. september 2010

Tea tree olía

Sæl!

Mig langar að vita hvort að það sé óhætt að nota Tea tree olíu á meðgöngu? Hef heyrt að hún sé góð við t.d. þrymlabólum sem ég er gjörn að fá og þær aukast á meðgöngunni. Þessi olía er notuð útvortis á sýkt svæði.


Sæl og blessuð!

Það þarf að fara varlega í að nota ilmkjarnaolíur á meðgöngu og almennt er ekki mælt með notkun þeirra á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Vissar ilmkjarnaolíur geta gagnast við ýmsum kvillum á meðgöngu og geta hjálpað konum í fæðingu t.d. með því að auka slökun og draga úr kvíða og ótta. Ilmkjarnaolíur gagnast einnig við ógleði og uppköstum í fæðingu og draga úr þörf á annarri verkjameðferð.

Tea tree er ilmkjarnaolía sem hefur sótthreinsandi verkun og verkar á bakteríur, sveppi og vírusa. Tea tree olíuna er óhætt að nota útvortis á meðgöngu t.d. til að setja á bólur eins og þú nefnir. Tea tree olíuna  ætti ekki að nota í fæðingu vegna þess að hún getur hugsanlega valdið slökun í leginu. Tea tree olían getur valdið húðbólgum við langvarandi notkun.

Það er rétt að nefna það að ilmkjarnaolíur innihalda mjög virk efni og því ætti aldrei að taka inn ilmkjarnaolíur á meðgöngu. Að sama skapi geta  ilmkjarnaolíur verið varasamar fyrir börn og ætti því að geyma þar sem börn ná ekki til. Þegar ilmkjarnaolíur eru notaðar á meðgöngu eru þær t.d. notaðar í nuddolíu, settar út í bað eða með því að lykta af þeim.  Eins og áður segir þarf að fara varlega, nota litla skammta og vera viss um að óhætt sé að nota tiltekna ilmkjarnaolíu á meðgöngu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. september 2010.

Heimildir
Tiran, D. (2000). Clinical aromatherapy for pregnancy and childbirth (2. útg.). London: Churchill Livingstone.
Tiran, D. (2004). Implementing Aromatherapy in Maternity Care. Chatham, Expectancy Ltd.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.