Tea tree stílar við sveppasýkingu

03.10.2009

Sælar og takk fyrir fína síðu.

Ég sá að það mætti senda inn athugasemd en mig langaði svo að mæla með tea tree stílum við sveppasýkingu í leggöngum. Ég er gengin 6 mánuði á leið og fékk sveppasýkingu (candida) fyrir rúmum mánuði og notaði tea tree stílana (og minnkaði sykurneyslu) og varð góð mjög fljótt. Ég keypti tree trea stílana í Jurtaapótekinu hjá Kolbrúnu grasalækni á Laugavegi og þær fullvissuðu mig um að það væri í lagi að nota þá á meðgöngu og mér sýnist á öllu að þær séu afar strangar á inntöku jurta á meðgöngu og fátt sem að megi taka en tea tree er í lagi útvortis.

Annað sem ég hef gert með góðum árangri er að nota kalt á gyllinæð. Ég hef sett klaka í mjög stutta stund þarna niðri bara alveg örstutt og mér fannst það hjálpa.

Bestu kveðjur.


Sæl og blessuð og takk fyrir sendinguna!

Það er alveg rétt að það er óhætt að nota tea tree stíla við sveppasýkingu og gott að vita að hægt sé að kaupa þá í Jurtaapótekinu. 

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. október 2009.