Spurt og svarað

03. ágúst 2008

Tilgangur sónarskoðanna

Kæru ljósmæður!

Ég hef verið að velta eftirfarandi spurningum fyrir mér:

Hver er raunverulegur tilgangur sónarskoðanna við 11-14 viku og svo 20 viku?  Þurfa allar konur virkilega að fara í þessar rannsóknir?  Hvað með þær sem aldrei vildu láta binda endi á meðgöngu, sama þó fóstrið væri ólífvænlegt, og vildu þá heldur leyfa náttúrunni að ganga sinn gang og meðgöngunni að enda þegar líkaminn ákveði að tíminn væri?  Eru einhverjir sjúkdómar sem ekki kæmu í ljós við fæðingu eða fljótlega eftir fæðingu sem virkilega skiptir sköpum að greina í móðurkviði?

Ég er þakklát fyrir að okkur stendur þessi rannsókn til boða en velti fyrir mér hvort ekki mætti kynna þær frekar sem val móður en hálfgerða skyldu sem væri alvarleg vanræksla að sleppa. Er ekki líka hagur okkar að mæður læri að treysta á sjálfar sig og tilfinningu fyrir fósturhreyfingum sem merki um hvort allt sé í lagi eða ekki?  Og hvað með að taka bara lífinu með öllum þeim áföllum og gleði sem það hefur uppá að bjóða?

Gætuð við hjálpað mér að finna svör við þessum spurningum?


Sæl!

11-14 vikna og 20 vikna ómun er val verðandi foreldra og ber heilbrigðisstarfsmönnum kynna þessar skoðanir sem slíkar. Tilgangur þessara skoðana er að staðfesta meðgöngulengd, fjölda fóstra,   skoða líkamsgerð m.t.t. sköpulags og líffæragalla. Að auki við 11-14 vikur er hnakkaþykkt mæld til að meta líkur á litningagalla, fylgjustaðsetning skoðuð m.t.t. fæðingamáta. Ef fósturgallar finnast þarf stundum fleiri rannsóknir eins og litningarannsókn, sérstaka hjartaómun en það fer eftir eðli gallans.

Oft er vandamálið þess eðlis að það lagast að sjálfu sér en í  einstaka tilfellum finnast mjög alvarlegir fósturgallar þar sem barninu er ekki hugað líf eða búist við mikilli andlegri og /eða líkamlegri fötlun þess. Þá standa foreldrar frammi fyrir því erfiða vali að halda áfram meðgöngunni eða ljúka henni með fóstureyðingu. Margir fósturgallar eru þess eðlis þá má lækna með aðgerð eftir fæðingu þá er gott að vita af því fyrir fæðingu til að undirbúa komu barnsins. Þeir foreldrar sem geta ekki hugsað sér að fá þessar upplýsingar og vilja taka því sem að höndum ber ættu ekki að þiggja þessar skoðanir.

Sjá nánar á heimasíðu fósturgreiningardeildar.

Kveðja og gangi þér vel,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreiningardeildar LSH,
3. ágúst 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.