Tilkynnt um kyn án þess að spyrja?

16.11.2009

Góðan dag!

Mig langar að spyrjast fyrir um þær reglur sem ljósmæður starfa eftir þegar um vaxtasónar er að ræða. Við hjónin ákváðum að vita ekki kynið á unganum okkar og höfum verið mjög spennt yfir því að láta það koma okkur á óvart. En í vaxtarsónar þegar ljósmóðirin var að mæla barnið sagði hún til um hvort kynið væri um að ræða. Við óskuðum ekki eftir því að vita kynið og töldum að maður þyrfti ekkert að tilkynna það sérstaklega, er það misskilningur hjá okkur? Hve örugg er kyngreining á viku 34 miðað við 20 viku?

Takk fyrir frábæran vef.

Kveðja, Ungamamma.


Sæl!

Þær reglur gilda á fósturgreiningardeildinni að aldrei er talað um kyn, nema foreldrar óski eftir því sérstaklega. Hins vegar tölum við oft um „hann“ „krakkann“ meðan á skoðun stendur og þykir okkur leitt ef það er misskilið sem að barnið sé drengur. Kyngreining með ómskoðun er aldrei 100%.

Kveðja og gangi þér vel,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
16. nóvember 2009.