Tímasetning hnakkaþykktarmælingar

10.10.2008

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég er í smá vafa. Ég bý erlendis og var að fá sent bréf frá sjúkrahúsinu með innköllun í hnakkaþykktarmælingu. Ég á að fara þegar ég er á 11. viku, þ.e. gengin ca. 10 vikur og 5 daga. Er það ekki of snemmt? Sjá þær strax ef ég er komin of stutt? Getur það haft áhrif á nákvæmni mælingarinnar ef hún er gerð svona snemma

Með fyrirfram þökk, Eva.


Sæl!

Hnakkaþykktarmælinguna er ekki hægt að gera fyrr en við 11 vikur og 2 daga. Á sumum sjúkrahúsum er blóðprufan tekin á undan og svo komið í hnakkaþykktarmælinguna nokkrum dögum síðar og þá liggja niðurstöður blóðprufunni fyrir og fær þá konan niðurstöðuna strax eftir hnakkaþykktarmælinguna. Á  Íslandi gerum hvort tveggja í einni ferð og konur fá niðurstöðu eftir 2 daga. 

Kær kveðja og gangi þér vel,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
10. október 2008.