Spurt og svarað

11. mars 2009

Barnsfaðir alkahólisti

Nú hef ég verið í sambandi með manninum mínum í nokkur ár og svo virðist sem að ég hafi verið blessuð og geng loksins með barn undir belti. Við höfum átt við vandamál eins og aðrir en stærsta vandamálið í mínu sambandi er að maðurinn hefur drukkið mjög mikið, nánast daglega og mikið í mörg ár. Hann hefur hinsvegar minnkað það til muna þegar hann frétti að nú eigum við von á barni. Þetta er hans fyrsta barn en ég á fyrir heilbrigt barn. Hann er góður maður og ég hef alltaf trúað því að eitthvað svona þyrfti að gerast til að hann myndi drífa sig í því að finna styrk til að breyta um lífsstíl og ég trúi því að batnandi manni sé best að lifa. Eins og er gengur sambandið rosalega vel og við erum mjög hamingjusöm, okkur hlakkar til og hann er eins og nýr maður. En ég er óttaslegin því þrátt fyrir að ég lifi heilsusamlegu lífi þá velti ég því fyrir mér hvort það séu yfirgnæfandi líkur á fötlun hjá barninu vegna hans lífernis þegar barnið kom undir? Hann er stórreykingamaður og eins og ég sagði, hefur drukkið svakalega mikið í gegnum tíðina. Eru rannsóknir sem benda til þess að það séu miklar líkur á fötlun eða er líferni móður sem hefur meira að segja?

Og eitt enn: ég fór á kvíða-/þunglyndislyf í nokkrar vikur sem má alls ekki taka á meðgöngu. Mér leið augljóslega illa og það var mikið til vegna ástandsins í sambandinu. Ég var búin að vera hætt á því í tæpa 3 mánuði þegar ég varð svo ófrísk. Er ekki geðlyf farið úr líkamanum eftir þennan tíma? Ég er heilsusamleg og vanda mig að borða vel og hvíla mig vel, halda mig frá öllum skaðlegum efnum og tek ekki einu sinni panodil. Ég tek pregnant care vítamín og annað slagið auka fólinsýru. Ég treysti því að góð heilsa mín gefi mér heilbrigt barn. En ég tek því sem höndum ber að sjálfsögðu og allt kemur í ljós á endanum en ég vil vona það besta. Ég hef samviskubit yfir því að óttast að barnið sé ekki eðlilegt en ég hugsa stöðugt um það hvort sæði mannsins míns sé gallað vegna vínmengunar og muni gefa mér óheilbrigt barn. Ég finn engar rannsóknir um þetta, bara talað um líferni móður.

Takk fyrir frábæran vef.

 


Sæl og þakka þér fyrir bréfið!

Til hamingju með þungunina. Þú ferð greinilega vel með þig og líkurnar á að allt gangi vel eru góðar. Mig langar að byrja á að svara þér með geðlyfin. Það er allt sem bendir til þess að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af afleiðingum þeirra þar sem svo langur tími leið frá því að þú hættir notkun þeirra þar til þú varðst þunguð. Það er meira að segja þannig með sum geðlyf að það er ekki mælt með notkun þeirra á meðgöngu þótt það hafi ekki beint verið sýnt fram á skaðsemi þeirra. Þetta er fyrst og fremst varúðarráðstöfun sem er vegna skorts á sönnunum um skaðsemi lyfjana.

Varðandi áfengisneyslu maka þíns fyrir þungun þá eru engar rannsóknir sem ég finn sem sýna fram á það að auknar líkur séu á líffræðilegum skaða fóstursins vegna drykkju föður fyrir þungun. Eina beina afleiðing áfengisneyslu tengda þungun sem ég fann er að sæði er latara hjá karlmönnum sem neyta mikils magn áfengis og aukin ófrjósemi er hjá þessum hópi karla. En hins vegar hafa lifnaðarhættir maka andleg- og félagsleg áhrif á verðandi móður og ófætt barn.

Gangi þér vel!

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
11. mars, 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.