Spurt og svarað

21. febrúar 2008

Tognun á legböndum?

Sæl

Ég geng nú með mitt annað barn, komin 36 vikur, og hef fundið verulega fyrir því þegar tognar á liðböndunum, sem halda í legið og yfir í mjaðmagrind. Ljósmóðirin sem ég fer til segir þetta alveg eðlilegt (fann fyrir þessu á síðustu meðgöngu líka). Nú hinsvegar fann ég ægilegan verk í liðböndum öðru megin og var miklu verra en venjulega og ég er með eins og hræðilegar harðsperrur yfir alla kúluna og er mjög aum viðkomu. Ég er búin að fara í skoðun og ljósmóðirin gaf ekkert út á þetta. Ég fékk þennan verk í gær og hef verið mjög slæm síðan og svaf þ.a.l. lítið í nótt. Þegar samdrættir verða finn ég mikið til í kúlunni. Það er eins og ég sé marin um alla bumbuna og það er mjög erfitt að hreyfa sig og líka liggja (á MJÖG erfitt með að finna þægilega stellingu þrátt fyrir að nota púða til aðstoðar).

Er eitthvað sem ég get gert? Er einhver möguleiki að liðbandið hafi tognað (eins og tognun á ökla) eða telst þetta eðlilegt?

Kv. páskaunginn

 


 Sæl

Það er mjög erfitt að greina þig svona í gegnum tölvuna.  Mig vantar upplýsingar um hvort eitthvað kom fyrir eins og fall.  Oft finna konur eins og kúlan sé marin á ákveðnum bletti og er það þá venjulega þar sem barnið er að sparka eða þrýsta uppundir rifbein eða annað slíkt, venjulega liggur þá verkurinn samt ekki yfir alla kúluna eins og þú lýsir. 

Annað sem mér dettur í hug er að þú sért að byrja í fæðingu þar sem þú segir að verkirnir verði verri þegar samdrættir koma.  Hvað koma þeir oft?

Ef þetta lagast ekki fljótlega eða fæðing er farin af stað myndi ég fara aftur til ljósmóðurinnar eða læknis og tala nánar um þetta við þau.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
21. febrúar 2008.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.