Tómur fóstursekkur

12.03.2011

Takk fyrir frábæran vef, er búin að lesa mikið um tóman fóstursekk.

Í morgun kom einmitt í ljós að minn er tómur. En þær vilja fá mig aftur eftir 2 vikur til að kíkja aftur því þeim leist vel á sekkinn og halda að ég sé bara komin styttra en ég hélt (var með barn á brjósti, þegar ég varð ólétt og fór bara einu sinni á blæðingar áður en það kom jákvætt). En það sem mig langar að vita og gleymdi að spyrja þær um. Ef hann er enn tómur eftir 2 vikur, þarf ég þá að fara í útskröpun eða fer þetta bara með tímanum? Og einnig, ég tók annað óléttupróf þegar ég kom heim og það kom alveg blússandi jákvætt eftir 2-3 sek. Er það líka alveg eðlilegt? Ein sem heldur í vonina um að lítil baun sé bara í felum :)


Sæl og blessuð!

Það er um að gera að halda í vonina í ljósi þess að meðgöngulengdin er óviss. Þegar meðgöngulengdin er um 4½ vika (m.v. 1. dag síðustu tíða) er einmitt mögulegt að sjá fóstursekk en það á ekkert annað að sjást á þeim tíma. Þegar meðgöngulengdin er um 5 vikur ætti að sjást svokallaður nestispoki inni í sekknum og svo við 5½-6 vikur ætti svo að sjást fóstur og fljótlega hjartsláttur.

Ef sekkurinn reynist tómur eftir 2 vikur þá er líklega um svokallað dulið fósturlát að ræða. Það er vissulega hægt að bíða og sjá hvort það fari að sjálfu sér en annars eru tveir meðferðarkostir í boði. Það er hægt að taka inn samdráttarlyf sem hjálpar leginu að tæma sig sjálft eða fara í úskaf í svæfingu þar sem legið er tæmt með sogi og sljórri sköfu. Þú færð nánari upplýsingar um kosti og galla þessara valkosta ef til þess kemur.

Þungunarprófið heldur áfram að vera jákvætt á meðan líkaminn heldur að þungun sé í gangi hvort sem hún er eðlileg eða ekki þannig að það segir ekkert til um hvort litla baunin sé að þroskast á eðlilegan hátt eða ekki á þessu stigi málsins.

 

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. mars 2011.