Tonic (Kínin) á meðgöngu

14.02.2007

Ég hef verið að drekka Tonic, því það er svo svalandi við þessum brjálaða þorsta sem ég hef fundið á meðgöngunni. En um daginn var mér tjáð það að kínin gæti komið fæðingu af stað og því fór ég að hafa áhyggjur. Einhvern veginn trúi ég því ekki, en vil nú samt vera viss og þar sem það eru 4 vikur í næstu mæðraskoðun leita ég til ykkar. Ég sem hélt ég væri búin að finna drykkinn fyrir mig. Er mér óhætt að drekka þetta?

Kveðja.

 


 

Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég finn þá ættu barnshafandi konur ekki að neyta kíníns í miklu mæli. Ég veit hins vegar ekki hvar mörkin liggja né heldur hvað er mikið af kínín í drykknum Tonic. Ég fann hins vegar grein á netinu þar sem barnshafandi konum er ráðlagt frá því að neyta drykkja sem innihalda kínin. Það er eflaust í lagi að drekka Tonic stöku sinnum en ég myndi ráðleggja þér að finna þér nýjan svaladrykk þar sem þetta er ekki alveg ljóst.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. febrúar 2007.

 Leitarorð: Tonic, tónik, kínin