Spurt og svarað

14. febrúar 2007

Treo á meðgöngu

Sæl!

Ég er komin um 16 vikur á leið og er búin að þjást af miklum höfuðverk. Ég hef ávallt verið mikið með höfuðverk og hann sem slíkur hefur ekki aukist nema ég finn meira fyrir honum núna en áður þar sem ég reyni að taka lítið af verkjalyfjum. Ég er samt sem áður búin að vera að taka Treo þegar höfuðverkurinn er að buga mig. Áður en ég var ólétt var ég að taka tvær í einu en núna tek ég ½ til 1.

Er þetta í lagi?


Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Treo inniheldur Asetýlsalisýlsýru og samkvæmt upplýsingum í Sérlyfjaskránni á vef Lyfjastofnunnar ætti ekki að nota Asetýlsalisýlsýru á síðasta þriðjungi meðgöngu og alls ekki dagana fyrir væntanlega fæðingu. Asetýlsalisýlsýra minnkað hríðir og seinkað fæðingu. Enn fremur getur Asetýlsalisýlsýra valdið lungnaháþrýstingi og öndunarörðugleikum hjá nýbura vegna samdráttar eða lokunar slagpípu (ductus arteriosus) hjá fóstrinu. Virkni blóðflagna hjá fóstri getur minnkað. Notkun asetýlsalisýlsýru síðustu 5 sólarhringa fyrir fæðingu getur aukið blæðingarhættu hjá móður og fóstri/barni.

Þú ættir að ráðfæra þig við lækni um hvaða lyf sé best fyrir þig að nota við þessum höfuðverk en annars er fjallað um verkjalyf á meðgöngu hér í annarri fyrirspurn.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. febrúar 2007.

 

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.