Túrverkir og niðurgangur

26.10.2014

Nú liggur mér á svari!
Ég er rétt gengin yfir 37 vikur með fyrsta barn og hef verið með túrverki daglega í 3 vikur. Í gær byrjaði ég að fá niðurgang og var ekki eins lystamikil á mat og aðra daga. Svo í nótt gat ég ekki sofið fyrir þessum túrverkjum og verkurinn hvarf ekki sama hvernig stellingu ég færði mig í, ég náði að sofna nokkrum sinnum inn á milli verkja en vaknaði svo aftur við þá og velti mér um í rúminu í leit að stellingu sem hentaði en það gekk illa. Ég náði loks að sofna á endanum en vaknaði svo kl. 8 í morgun við verkina enn og aftur og hef ekki náð að sofna síðan og þar af leiðandi er ég aftur komin með niðurgang eins og í gær.
Bkv. Ungamamma


 

Sæl Ungamamma
Það hljómar eins og þú sért með niðurgangspest, þegar ólga er í meltingarveginum getur það aukið á samdrætti og einnig valdið túrverkjum, svo er oft erfitt að greina hvað er hvað í maganum þ.e.a.s. hvort það er legið eða ristillinn sem er að valda verkjum. Annað sem gæti verið er að gerast er að þú sért að byrja í fæðingu, stuttu áður en fæðing hefst fá konur oft niðurgang.
Ég ráðlegg þér eindregið að tala við ljósmóðurina þína í mæðravernd og fá að koma í auka skoðun ef þú ert ekki þegar búin að því, það þarf einnig að útiloka að þú sért með þvagfærasýkingu.
Gangi þér sem allra best.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. október 2014.