Tveir keisarar

28.02.2012

Takk fyrir frábæran og aðgengilegan vef.

Ég er búin að ganga með tvisvar og endaði í keisara í bæði skiptin. Nú er ég gengin 6 vikur og farin að velta hlutunum fyrir mér. Telst ég til áhættumeðgöngu núna? Ég bý erlendis en er að flytja heim til Íslands. Ef allt gengur upp verð ég þá komin 17 vikur. Þá verður orðið stutt í að ég þurfi að fara í 20 vikna sónar. Veit ekkert hvert ég á að snúa mér.

Með fyrirfram þökk Sigríður


Komdu sæl.

Best væri fyrir þig að panta þér tíma hjá ljósmóður á þinni heilsugæslustöð, sem fyrst eftir að þú kemur heim.  Endurtaka þarf blóðprufur og þú getur fengið beiðni fyrir 20 vikna sónarnum. 

Þú getur verið í eftirliti á heilsugælsustöð en þarft ekki að vera á áhættumeðgöngudeild LSH þótt þú hafir farið í tvo keisara.  Þú þarft að fara í viðtal við fæðingalækni á heilsugæslunni en ljósmóðirin þín gefur þér tíma hjá honum.  Venjulega fara svo konur sem eiga tvo keisara að baki líka í keisara í þriðja sinn.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
28. febrúar 2012.