Tvíburar fæðing eða keisari?

05.11.2014

Sælar og takk fyrir fróðlegan vef.

Nú fer að líða að fæðingu tvíbbana minna en í dag er ég gengin 34 vikur+1 dag og er svolítið farin að velta þessu fyrir mér. Tvíburi A er í sitjandi stöðu og er frekar yfir meðallegi í stærð ef eitthvað er var rúmlega 2200 gr. við 32 vikur en tvíburi B er ýmist í þverlegu eða höfuðstöðu og talsvert minni eða mældist rúm 1800 gr. við 32 vikur. Ég var búin að búa mig undir að farið yrði í ferli til að ákveða keisara þar sem A er þetta stór og í sitjandi stöðu en fékk svo tíma hjá fæðingarlækni sem vill ekki heyra á það minnst að senda mig í keisara. Ég er orðin verulega hrædd við þessa fæðingu núna en reyni eins og ég get að undirbúa mig undir venjulega fæðingu (veit að það er alltaf betra og á tvær fæðingar að baki sem voru ekkert mál). Spurningin mín er hins vegar sú, hef ég akkúrat ekkert um þetta að segja eða verð ég bara að vona að A hægi á sér svo hann verði ekki of stór? Sæl og blessuð og takk fyrir þessa fyrirspurn.

Jú þú hefur alltaf þitt að segja í sambandi við val á fæðinga aðferð. Eins og þú bendir réttilega á þá er alltaf betra að fæða eðlilega ef hægt er og þú átt tvær „ekkert mál“  fæðingar að baki. Varðandi endanlega stærð A þá fer það heilmikið eftir því hve lengi þú gengur með. Mér finnst líklegt að hann verði af hæfilegri stærð og að ekkert sé því til fyrirstöðu að þú fæðir um leggöng. Ef þú kvíðir þessu mjög og ert hrædd við fæðinguna ráðlegg ég þér eindregið að ræða málið betur við ljósmóður og lækni í mæðraverndinni.

Gangi þér vel.

 Kær kveðja

Áslaug Valsdóttir

ljósmóðir og hjúkrunarfræingur