Útreikningur hjá ljósmóður og sónar

24.03.2009

Sælar! Kærar þakkir fyrir góðan og hagnýtan vef.

Af hverju er alltaf reiknaður að tíðahringurinn sé 28 dagar til að áætla meðgöngulengd og fæðingardag? Ég hef aldrei verið með þannig tíðahring, minn tíðahringur einskorðast við 21 dag, 23 í mesta lagi, það hefur gerst tvisvar, og blæðingarnar standa yfir í 5 daga hjá mér, hefur aldrei klikkað, en þetta breyttist allt hjá mér eftir að ég átti mitt fyrsta barn, það er að segja þannig að hringurinn er bara 21 dag á milli. Þetta sagði ég ljósmóður minni þegar ég kom í fyrstu skoðun en hún reiknar samt allt út frá því að þetta séu 28 dagar og það var líka gert í sónarnum. Þannig að ég er bara að velta því fyrir mér hvernig þetta hreinlega virki allt saman ég sem hélt ég væri með þetta alveg á hreinu því barnið sem ég geng með var skipulagt og því var allt reiknað út í bak og fyrir upp á egglos að gera.Hvað er málið?

Með þökk fyrir góðan vef og góð svör.


Sæl!

Tíðarhringur hjá langflestum konum er 28 dagar (1. dagur er fyrsti dagur blæðinga og síðasti dagur er síðasti dagur fyrir blæðingar) og egglos oftast á 14 degi frá fyrsta degi blæðinga, þess vegna er meðgöngulengd alltaf reiknuð þannig út. Ef kona fer hins vegar í ómskoðun á fyrstu 20 vikunum er meðgöngulengd reiknuð út frá stærð fóstursins og er væntanlegur fæðingadagur reiknaður við 40 vikur sem er þá 38 vikum frá getnaði, en mæliskekkja er alltaf +/- 5 dagar. Þessar mælingar er langoftast í samræmi við síðustu tíðir hjá konum sem eru með reglulegan tíðarhring á 28 daga fresti.

Kveðja,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
24. mars 2009.