Val á ljósmóður í meðgönguvernd

26.09.2007
Sælar!
Mig langar til að fræðast um val mitt á meðgönguvernd. Þarf ég að fara á mína heilsugæslustöð þar sem minn heimilislæknir er eða get ég farið annað ef að ég vil. Þegar ég á við annað þá á ég t.d. við aðra heilsugæslustöð eða til einkaaðila, ef að einhver er?  Hef ég val um ljósmóðir á meðgöngu?
Kveðja, AT.

Sæl og blessuð!
Val í meðgönguvernd er eins og í heilsugæslunni almennt. Þjónustan er fyrst og fremst hverfabundin, þ.e.a.s. heilsugæslustöðvarnar sinna öllum barnshafandi konum sem eru búsettar á þeirra svæði (á líka við um tímabundna búsetu t.d. vegna náms).  Hafi kona heimilislækni á annarri stöð en sinni hverfisstöð hefur hún val um að sækja þjónustuna á hverfisstöðina eða stöðina þar sem heimilislæknirinn er starfandi. Á flestum heilsugæslustöðvum eru starfandi fleiri en ein ljósmóðir og því mögulegt að velja um ljósmóður.  Þetta er svipað fyrirkomulag og er í ungbarnaverndinni.
Kær kveðja,
Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. september 2007.