Spurt og svarað

14. febrúar 2008

Vanlíðan í viku

Hæhæ.

Ég bý erlendis og er ófrísk af mínu fyrsta barni. Síðustu viku hef ég meira og minna verið með höfuðverk, svona hálfgerðan timburmannahöfuðverk.

Ég þamba og þamba vatn og það hjálpar ekki. Aldrei hef ég upplifað að ekki losni ég við höfuðverk með vatnsdrykkju. Á þessari rúmu viku hef ég átt tvo daga án höfuðverkja. Þetta er ekki svo slæmt að ég sé rúmliggjandi en þetta háir mér í náminu þar sem einbeitingin truflast.

Að auki hef ég verið að fá túrverki síðustu daga. Einhvers staðar las ég að það væri hættumerki á fyrstu 20 vikum meðgöngu, en aðrir segja að þetta sé eðlilegt því legið er að stækka. Hvort er rétt?

Og í ofanálag við það er ég farin að finna fyrir verkjum sem líkjast streng. Vaknaði upp með þessa verki í nótt og þeir ágerðust ef ég lagðist á vinstri hliðina. Hvað er þetta?

Ég fór síðast í skoðun miðjan janúar og á ekki tíma aftur fyrr en í lok febrúar, það er einfaldlega ekki laus tími fyrr.

Er ég að vera stressuð til einskis? Er eðlilegt að líða hálf óþægilega og ómögulega meirihluta vikunnar?

Með von um skjót svör,

Elsa


Sæl Elsa

Leiðinlegt að heyra að þér líði svona illa. Þér láðist að segja hvað þú ert langt gengin þannig að það er svolítið erfitt að svara þér en ég skal reyna.

Höfuðverkir eru algengir á meðgöngu og tengjast breytingum á æðakerfi og blóðrás.  Það verður víkkun á öllu æðakerfinu í meðgöngu og aukning á blóðmagni sem getur valdið þrýstingi í höfði og höfuðverk.  Ef þú ert mjög dugleg að drekka getur það aukið á höfuðverkinn en ég mæli alls ekki með því að drekka lítið eða ekkert.  Best er að finna einhvern milliveg.  Þessi höfuðverkjaköst geta komið og farið alla meðgönguna eða verið bara tímabundið og ekkert hægt að segja til um hvort verður ofan á í þínu tilviki.  Það er samt skrítið að konur sem eru með mígreni fyrir eru oft betri á meðgöngunni en ég kann ekki skýringu á því.

Túrverkir (án blæðingar) eru eðlilegir í byrjun meðgöngu vegna stækkandi legs og oftast tala konur þá um vægan seiðing eins og blæðingar séu að byrja.  Túrverkir geta samt vissulega líka verið merki um að eitthvað sé að ef þeir eru mjög sterkir og standa lengi og sérstaklega ef blæðing fylgir.  Seinna á meðgöngunni geta þeir verið merki um fyrirburafæðingu.  Þar sem ég veit ekki hve langt þú ert komin verð ég að ráðleggja þér að tala við ljósmóðurina þína eða lækni til að fá nánari skýringu á þessu. 

Ég veit ekki alveg hvað þú átt við með verjum sem líkjast streng en held þó að þú sért að tala um togverki.  Stingi sem koma og fara, geta komið hvenær sem er en þó oft þegar þú ert að skipta um stellingar eða hreyfa þig.  Þetta er tognun á legböndum, en þeirra hlutverk er að halda leginu á sínum stað í grindarholinu.  Þegar legið stækkar tognar á þessum böndum og veldur verkjum.  Venjulega finna konur mest fyrir þessum verkjum í byrjun meðgöngunnar en svo hætta þeir með tímanum.

Vona að þetta svari spurningunni en ég hvet þig til að tala um þetta við ljósmóðurnina þína eða lækni, sem geta svarað þér af meiri nákvæmni.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
14. febrúar 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.