Spurt og svarað

07. ágúst 2014

Vanlíðan með eigin tilfinningar

Sælar ætla að láta á þetta reyna.
Þannig er mál með vexti að ég á von á tvíburum síðar á árinu eða tveimur stráklingum sem er bara dásamlegt. En mér virðist þó mjög erfitt að viðurkenna fyrir sjálfri mér að það séu tveir strákar en ekki sitthvort kynið og ég upplifi mig sem mjög slæma mömmu að geta það ekki og er því mín spurning get ég leitað eitthvert með þetta þar sem ég vil síður ræða þetta við fólk sem ég þekki og bý í litlu sveitafélagi og þekki því ljósmæðurnar.
Sæl
Til hamingju með þungunina. Mér þykir leitt að heyra hvað þér líður illa með tilfinningar þínar og skil að þú ert óörugg með að tjá þig um þær á litlum stað. Eins og þú veist líklega er heilbrigðisstarfsfólk bundið þagnarskyldu í starfi og má ekki ræða mál skjólstæðinga sinna, þannig að þú getur verið alveg viss um að ljósan þín mun ekki ræða þetta við neinn. Hinsvegar getur verið að þér finnist erfitt að einhver sem þú hittir oft viti hvernig þér líður. Ef það er sálfræðingur við heilsugæsluna í þínu sveitafélagi getur þú beðið ljósmóðurina þína að koma þér að hjá honum. Þú þarft ekki segja henni hvers vegna þú vilt hitta sálfræðing, að hitta sálfræðing og ræða tilfinningar þínar gæti verið lausn í þínu tilfelli. Annar möguleiki fyrir þig er að leita til ljósmóður í næsta sveitafélagi. Þegar konur ganga með tvíbura og eru með þunn belgjaskil er vaninn að konan komi í viðtal við fæðingarlækni í áhættumæðravernd á Landspítalanum. Nú veit ég ekki hvort þú sért búin að koma í viðtal en þar væri einnig góður vettvangur til að ræða þetta. Í viðtalinu er sett upp áætlun fyrir fæðinguna og konan hittir oftast ljósmóður og fæðingarlækni.
Vona að þetta hjálpi þér, gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. ágúst 2014.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.