Spurt og svarað

03. apríl 2008

Vantar upplýsingar um meðgöngueitrun o.fl.

Sælar og takk fyrir góða síðu!

Konan mín er ólétt af fyrsta barni, komin 38v+2d og er með þann úrskurð um að hún sé með meðgöngueitrun. Einkennin sem hún hefur verið með eru:

 • Slæmir hausverkir koma og fara á hverjum degi.
 • Stundum of hár blóðþrýstingur (hann er mjög mikið rokkandi upp og niður)
 • Flygsur fyrir augum á hverjum degi
 • Illt undir bringspölum af og til á hverjum degi
 • Bjúgur sem virðist bara að vera að aukast - var blá á fótunum í dag og fær hvíta flekki
 • Það hefur einu sinni fundist 1+ prótein og einu sinnu 1+ sykur í þvagi og nokkrum sinnum „trace“

Hún hefur núna legið í rúminu í mánuð og hefur blóðþrýstingur verið, eins og fyrr segir, rokkandi upp og niður. Og líklega vegna hvíldarinnar hefur lítið fundist í þvagi. Einnig finnur hún verulega fyrir grindargliðnun. Hún hefur nú farið til margra lækna, bæði á dagönn og heilsugæslustöðinni, og fer það eftir læknunum hversu mikla meðgöngueitrun hún er með! Það hefur verið alveg frá því að vera engin meðgöngueitrun og upp í miðlungs meðgöngueitrun! Þetta eru mjög óljós skilaboð og fer þetta algjörlega eftir hvaða læknir á í hlut!

Legbotninn var mældur þegar 38 vikur voru liðnar og mældist hann þá 43 cm. Samkvæmt grafinu á fæðingarskýrslunni er þetta langt fyrir ofan meðalgildi. Hún fór í vaxtarsónar á 32. viku og þá mældist legbotninn 36 cm. Okkur hefur ekkert verið sagt hvað merkir að vera með svona stóran legbotn fyrir utan það að það gæti verið vísbending um meðgöngu sykursýki. Það var athugað í hennar tilfelli, en svo reyndist ekki vera. Barnið hefur verið mjög sprækt á meðgöngunni og verið að hreyfa sig mjög mikið. En núna upp á síðkastið hafa þessar hreyfingar minnkað mjög mikið. Hún hefur verið send í mónitor mjög oft á seinni hluta meðgöngunnar vegna hraðs hjartslátts í barninu (um 160 og upp), en alltaf komið gott rit og hraður hjartslátturinn talinn vera vegna mikla hreyfinga og vegna hraðs púls móður sem er nær alltaf yfir 100. En nú er barnið sem sagt komið með hægari hjartslátt um 140 (sem ég veit að er eðlilegur hraði) og minnkaðar hreyfingar, er þetta góðs viti eða hvað? Eða gæti verið að þetta sé bara byrjunin og að hjartslátturinn og hreyfingarnar haldi áfram að minnka?

Nú koma nokkrar spurningar:

 1. Er eðlilegt að blóðþrýstingurinn sé að fara svona upp og niður þrátt fyrir að hún sé alltaf í hvíld?
 2. Er hún samkvæmt þessari lýsingu með meðgöngueitrun eða ekki?
 3. Á hún ekki að vera send í vaxtarsónar vegna stærð legbotnsins?
 4. Hvað þýðir það að hún sé með svona stóran legbotn?
 5. Er eðlilegt að barnið minnki verulega hreyfingar skyndilega?
 6. Hvenær er ákveðið að fæðing skuli vera framkölluð? Þegar allt er komið í óefni? Hefur konan eitthvað val um það að fara í gangsetningu? Ég veit að hún vill ekki fara í keisara þegar í óefni er komið. 

Allar ábendingar væru vel þegnar.

 


 

Sæll og blessaður og takk fyrir að leita til okkar!

Ég skal reyna að svara spurningunum ykkar:

 1. Það getur alveg verið eðlilegt að blóðþrýstingurinn rokki svolítið þrátt fyrir að hún sé alveg í hvíld. Það er margt sem hefur áhrif á blóðþrýstinginn sem við ráðum ekki við.
 2. Það kallast væg meðgöngueitrun þegar blóðþrýstingur er >140/90 eða hækkun um 30 í efri mörkum og 15 í neðri mörkum frá blóðþrýsting í fyrstu skoðun og 300 mg próteinútskilnaður á 24 tímum sem samsvarar um 2+ á stixi.
  Það kallast alvarleg meðgöngueitrun þegar efri mörk blóðþrýstings eru 160 eða hærri eða neðri mörk 110 eða hærri og próteinútskilnaður 5 grömm eða meira á einum sólarhring (samsvarar 4+ á stixi).
  Þú nefnir ekki hversu hár blóðþrýstingur er en 1+ af próteinum þarf ekki endilega að vera merki um meðgöngueitrun, a.m.k. ekki alvarlega. Hins vegar eru einkenni s.s. verkur fyrir bringspölum, höfuðverkur, flyksur og sjóntruflanir frekar einkennandi fyrir alvarlega meðgöngueitrun. Það er hægt að greina meðgöngueitrun nánar með því að mæla nákvæmlega próteinútskilnað í einn sólarhring og svo er hægt að meta ástandið enn frekar með því að taka blóðprufur.
 3. Ég treysti mér ekki til að svara þessu en líklega myndi það ekki hafa mikið upp á sig að gera vaxtarsónar á þessum forsendum þar sem líklega yrði ekki gert mikið með þær niðurstöður. Það er frekar ástæða til að gera vaxtarsónar ef grunur er um að barn sé að vaxa of lítið. Konur eru stundum gangsettar vegna vaxtaskerðingar en það ætti ekki að gangsetja konur þó að barnið sé í stærra lagi.
 4. Ef legbotnshæð er meiri en meðgöngulengd í vikum getur það bent til þess að fóstrið sé óvenju stórt eða að legvatn sé óvenju mikið. 
 5. Talið er eðlilegt, að ófætt barn hreyfi sig tíu sinnum á innan við tveimur tímum.
 6. Fæðingu ætti helst aðeins að framkalla af læknisfræðilegum ástæðum og ætti því að vera fagleg ákvörðun læknis tekin í samráði við væntanlega foreldra. Helsta ástæða fyrir framköllun fæðingar er þegar talið er að það sé heilsu móður og/eða barns fyrir bestu að ljúka meðgöngu.

Vona að þetta svari einhverju.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. apríl 2008.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.