Varanleg förðun - tattoo

25.03.2008

Sælar.

Ég hef verið að velta því fyrir mér að fá mér húðflúr í augabrúnirnar á mér. Þetta er ekki eins og hefðbundið húðflúr, heldur dugir þetta í um 3-5 ár. Talað er um að þetta fari í dermis húðlagið. Ég er komin 24 vikur á leið og er búin að spyrjast fyrir hjá konu sem
hefur verið að kenna þetta í 10 ár og vinna við þetta. Hún vildi meina að það að vera ólétt hefði engin áhrif. Ég er að velta fyrir mér hvað þið ljósurnar hafið um þetta að segja. Hefur þetta einhver áhrif á barnið/börnin á meðgöngunni?


Sæl og blessuð!

Því miður þá þekki ég ekki þessa aðferð og get því ekki gefið þér afgerandi svar. Sagt að mesta hættan við að fá sér húðflúr sé hætta á að smitast af óhreinum nálum ef ekki eru viðhöfð hreinleg vinnubrögð. Ég býst þó við að þeir aðilar sem bjóða svona þjónustu hér á landi passi vel upp á hreinlætið. Annað sem vert er að hafa í huga að það er ekki vitað hvaða áhrif þessi litarefni hafa á fóstur í móðurkviði. Ég myndi frekar ráðleggja þér að bíða með þetta þangað til barnið er fætt þar sem ekki er vitað með vissu hvaða áhrif þetta hefur.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. mars 2008.