Vaxtasónar hjá mæðrum með meðgöngusykursýki

19.03.2011

Sælar!

Nú var ég að koma úr mínum öðrum vaxtasónar þar sem ég er með meðgöngusykursýki en hef náð að stjórna henni með mataræði. Fyrir 2 vikum fór ég í minn fyrri vaxtasónar og konan þá vildi meina að barnið væri í kringum 2600 gr og ég mætti búast við 3800 gr barni þar sem þessi sónar var gerður við 34 vikur og 4 daga og svo hitti ég aðra í dag sem að mér fannst vera að flýta sér meira en hin síðast og hún vildi meina að barnið hafi stækkað um 800 gr á 2 vikum. Mér finnst þetta svo mikil þyngdaraukning hjá barninu og mætti búast við 4500 gr barni miðavið 40 vikur. Tek það líka fram að ég er með allt of mikið legvatn 2x of mikið. Hver eru frávikin í svona sónar.

Með fyrir fram þökk.


Sæl!

Til að meta vöxt barna í móðurkviði er mælt ummál höfuðs og kviðar og þyngd barns fengin út frá þessum mælingum, ómskoðun er það besta sem við höfum til þessara mælinga en samt eru skekkjumörk +/- 10-15%, ef legvatn er mikið getur skekkjan verið meiri. Það er algengt að börn bæti við sig um 150 gr frá viku 34-36v, en eftir það um 250 gr á viku. Hjá konum með sykursýki getur þyngdaraukningin verið meiri.

Kveðja og gangi þér vel,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir fósturgreiningardeild,
19. mars 2011.