Spurt og svarað

17. febrúar 2014

Verkir efst í kúlunni

Góðan daginn og takk fyrir frábæra síðu
Ég er komin á 35. viku með þriðja barn og er síðustu vikuna búin að vera með verk efst á kúlunni, aðeins til vinstri. Ég hef ekki fengið verki líka þessu á fyrri meðgöngum. Ég sé ekki mar eða neina áverka þarna. Þetta er tilfinning eins og eitthvað sé að rifna í sundur og hefur nokkrum sinnum orðið það sárt að ég get ekki hreyft mig eða staðið. Þetta er verra þegar ég er búin að vera standandi lengi, en fer aldrei alveg. Þetta virðist ekki tengjast mataræði. Ég spurði ljósuna mína út í þetta en hún gerði lítið úr því og sagði konur oft fá óútskýrða verki. Nú hins vegar er þetta búið að vera í viku svo mig langaði að athuga hvort þið hafið einhverjar hugmyndir um hvað þetta gæti verið?Sæl
Það er rétt að konur fá oft óútskýrða verki á meðgöngunni sem koma og fara en þeir eiga ekki að vera viðvarandi. Það sem þú lýsir hljómar eins og þreytuverkur þar sem þetta er verra þegar þú ert búin að standa lengi. Það kemur mikið tog á kviðvöðva og svo er líkamsstaða breytt á meðgöng þannig að það kemur meiri fetta og kviðurinn þrýstist meira fram en venjulega. Það gæti einnig verið að þú sért með brjóstsviða, einkenni geta verið verkur efst í kvið og til vinstri. Þér er óhætt að nota lyf við brjóstsviða sem heitir Omeprazole, það fæst án lyfseðils í apótekinu. Einnig máttu taka Parasetamol 2 stk í einu við verknum. Annars finnst mér rétt að þú ræðir þetta betur við þína ljósmóður, hún spyr þig þá nánar um einkennin sem getur e.t.v. hjálpað til við að finna hvað er að angra þig, kannski vill hún einnig fá lækni til að kíkja á þig.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
17. febrúar 2014.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.