Spurt og svarað

29. júlí 2008

Verkir eftir samfarir og svefnvandamál

Sælar

mig langar að vita hvort að það sé alveg eðlilegt að fá mikla verki eftir kynlíf, ég sef varla nóttina eftir að við hjónin stundum kynlíf og er með mikla samdrætti og verki í bakinu.

Ég er með þessa bakverki "venjulegar" nætur líka en þó ekki nálægt því jafn mikla og sumar nætur sef ég mjög vel.  Ég sef með snúningslak og er stundum að brasast með einhvern kodda undir bumbunni ef ég er extra slæm. Ég er gengin 32 vikur.

Einhver góð ráð við svefnerfiðleikum væru líka vel þegin.

Kærar þakkir


Sæl

Vissulega koma samdrættir í legið eftir fullnægingu og geta komið eftir ertingu á leghálsi eins og við samfarir.  Þessir samdrættir geta komið fram í verkjum sem geta líka leitt aftur í bak.

Hitapoki getur verið góður við bakið á meðan verkirnir eru að líða úr, eða að fara í (mátulega) heitt bað sem líka virkar slakandi fyrir svefninn.  Flóuð mjólk eða heitt kakó er róandi og svæfandi og einnig er til te sem getur hjálpað við slökun.  Þú þarft að koma þér vel fyrir og kannski þarftu fleiri púða eins og á milli hnjánna og við bakið auk þess sem þú hefur undir bumbunni.  Nudd á kvöldin getur hjálpað og slökunaræfingar sem innihalda hæga og djúpa öndun.  Gönguferðir daglega auka vellíðan og slökun.  Þú skalt líka forðast drykki sem innihalda koffein.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. júlí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.