Verkir í brjóstum, komin rúmlega 32 vikur

23.11.2006

Heilar og sælar og takk fyrir góðan vef.

Ég er komin rúmlega 32 vikur og hef verið að fá verki í brjóstin. Held samt að það sé sennilega af því að broddurinn sé að koma, en það hafa komið nokkrir glærir dropar úr hvoru. Málið er að þau eru frekar heit alltaf og rauð, er það alveg eðlilegt? Eins hefur verið náladofi, í vinstra brjóstinu, ég hélt að það væri af því að brjóstahaldarinn væri of þröngur yfir rifbeinin, en svo hef ég verið að fá þetta þegar ég er ekki í honum líka.

Með von um svar, H.


Sæl og blessuð H.

Þetta getur alveg verið eðlilegt. Verkirnir eru vegna alls þess sem er að gerast inn í brjóstunum til undirbúnings brjóstagjöfinni. Náladofinn getur verið tilfinning sem þú færð vegna þrýstings innanfrá. Þá verður klemma á taugum. Það er líklegast að þetta gerist eftir langan tíma í sömu stellingu. Kannski eftir að legið hefur verið á annarri hliðinni lengi eða hallað sér út á hlið í stól lengi. Þetta ætti svo að jafna sig eftir smástund í eðlilegri stöðu eða eftir smá nudd.    

  

yfirfarið 29.10.2015