Verkir í nára eftir byltu

24.01.2008

Ég er með spurningu um hvernig grindargliðnun lýsir sér. Málið er að ég var að labba í hálku og rann með annan fótinn til hliðar þannig að svakalegur slinkur koma í nárann. Þetta eru orðnir 5 dagar síðan. Daginn eftir var allt í lagi því ég kvíldi mig vel eftir þetta. en núna er ég frekar slæm í náranum. Getur verið að gridargliðnun eða los komi í kjölfar svona byltu??

Kveðja. ein með 6. barnið á leiðinni

P.s. Ég hef aldrei að hinum meðgöngunum fengið grindargliðnun.


Komdu sæl.

Já það getur verið að grindarverkir byrji þegar svona kemur fyrir, en það getur líka verið að þú hafir tognað við þetta og þurfir að gefa því tíma til að jafna sig.  Los kemur á alla liði á meðgöngu og því er konum hættara við að togna á þessu tímabili en annars. 

Grindarverkir lýsa sér oft í verkjum sitthvorumegin aftan á mjöðmum/rasskinnum og/eða í lífbeini sem leiðir þá oft niður í nára.  Verkirnir geta líka leitt niður í fætur eða upp í bak. 

Þú skalt reyna að hvíla þig eins og þú getur og passa upp á líkamsstöðuna, kannski gengur þetta til baka en ef ekki þá er mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir að verkirnir verði a.m.k. ekki verri.  Þú getur fundið fleiri ráð við grindargliðnun hér á síðunni.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
24.janúar 2008.