Verkir neðst í kúlunni

02.04.2013
Sælar!

Langar svo að spyrja smá spurningar. Þannig er að ég er gengin rúmar 28 vikur með mitt þriðja barn. Núna er ég farin að finna svo agalega verki alveg neðst í kúlunni, mér liggur stundum við gráti þegar ég er að labba um í vinnunni. Finnst eins og barnið sé komið svo neðarlega að það þrýstir á eitthvað sem er svona hrikalega sárt, þarf hreinlega að halda undir kúluna stundum. Ég fer orðið ansi oft á klósettið yfir daginn því það má ekki koma smá í blöðruna þá verða verkirnir verri. 
Fyrirfram þökk Emma
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

nokkrar hafa leitað til okkar með sama vandamál, sem þú getur fundið undir spurt og svarað hér á síðunni, t.d. hér.
Það sem þú lýsir, hljómar eins og barnið sé að stækka og jafnvel að skorða sig í grindinni. Legið er að stækka og það teygist á liðböndum sem halda leginu. Þú ert á þinni þriðju meðgöngu og oft finnur maður meira fyrir þessum breytingum eftir fyrstu meðgöngu.
Þú nefnir aukna verki þegar þvagblaðran fyllist. Ég myndi því láta athuga þvagið hjá þér í næstu mæðraskoðun, til að vera örugg að þú sért ekki með einkennalausa þvagfærasýkingu.

Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Arndís Pétursdóttir,
ljósmóðir
2. apríl 2013