Verkir yfir lífbeini

29.11.2007

Sælar og takk fyrir frábæra síðu, ég er gengin 30.vikur og nýlega hef ég farið að finna rosa verki þarna rétt fyrir ofan eða hjá lífbeininu, þetta er mjög slæmt ef ég ligg lengi og sest svo upp og ef ég beygi mig mikið eða sný mér mikið þegar ég ligg þá er eins og eitthvað tegist þarna inni sem myndar verk. Á frekar erfitt með að lýsa þessu en oft þegar ég vakna á
morgnanna á ég erfitt með að standa uppúr rúminu því ef ég reyni smá á mig koma verkirnir, er þetta grindagliðun eða er þetta eitthvað annað? vantar endilega svar.

kv.auður:)


Sæl Auður og takk fyrir að leita til okkar.

 

Já sennilega eru þetta grindarverkir sem þú ert að byrja að fá.  Ef þú ýtir á lífbeinið finnur þú sennilega fyrir verk sem getur svo leitt upp á við eða út í nára.  Gott er að sofa með kodda milli hnjánna til að hafa mjaðmagrindina sem beinasta yfir nóttina og nota snúningslak sem hjálpar þér að snúa þér, þú rennur svo vel á því.  Hvíld er nauðsynleg en þú þarft líka að passa líkamsstöðuna á daginn, standa jafnt í báða fætur, sitja ekki með krosslagða fætur, fara varlega í stiga, ekki bera þunga hluti og láta skúringar og slíkt eiga sig.  Það getur líka hjálpað að fara í meðgöngusund hjá sjúkraþjálfurum, eða í nálastungur. Fleiri ráð má finna hér á síðunni.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
29.11.2007.