verkur í eggjastokk

30.11.2014

Sæl, ég fór í snemmsónar í gær þá komin 7 vikur að ég hélt en var seinkað í 6 vikur. Þar kom allt eðlilega út og sást í hjartslátt. Fæðingarlæknirinn sagði að það væri allt í góðu. Um 4 tímum eftir snemmsónarinn fékk ég smá sviða eins og í annan eggjastokkinn og í gærkvöldi blæddi smá, kannski dropi. Kom ekkert í nótt en í morgun kom eins og gamalt blóð, en samt líka eins og bara 3-4 dropar. Er búin að vera með smá verk vinstra megin í leginu/eggjaleiðurunum en alls ekkert til að kvarta yfir. Þetta er fyrsta barn og vona ég svo innilega að það sé allt í góðu! Er þetta eðlilegt eða á ég að panta annan tíma hjá fæðingarlækninum?
Kv. Ein smá stressuð!


 Sæl og blessuð, það kemur oft smá blæðing í upphafi án þess að neitt sé að. Verkir í eggjastokk geta stundum bent til utanlegsfósturs, þú ert búin að fara í sónar svo að það er ólíklegt en ég ráðlegg þér ef verkir aukast eða halda áfram að leita til læknis.

Gangi þér vel

Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
30.11.2014