Spurt og svarað

27. mars 2011

Verkur í lífbeini og hlaup

Mig langaði að spyrjast fyrir um verk sem ég fæ í lífbeinið eftir góðan göngutúr eða þá þegar ég hef gengið mjög hratt. Ég er komin tæpar 23 vikur, er heilsuhraust og allt hefur gengið vel fram að þessu. Mér finnst eins og kynfærin séu þrútin þegar ég tek eftir þessum verk, þ.e. leggangaopið og svæðið þar í kring. Ég á fyrir tvö börn og man ekki eftir því að hafa fundið þetta á fyrri meðgöngum. Aðal ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að ég var vön því að hlaupa og æfa, tók mér 2ja mánaða pásu vegna bakverkja og er svo eitthvað rög við að byrja aftur út af þessum verk. Ætti ég kannski ekkert að vera að spá í þessu og skella mér bara í ræktina eða er þetta vísbending um að ég ætti ekki að stunda hlaup.

Kveðja, Kristín.

 


 

Sæl Kristín!

Fyrsta reglan varðandi líkamsrækt á meðgöngu og eftir fæðingu er „Hlustaðu á líkamann þinn“ þetta er eiginlega regla númer eitt, tvö og þrjú! Meðgönguhormónin hafa ýmis áhrif á líkamann og meðal annars „mýkist“ mjaðmagrindin á okkur, þ.e.a.s. það verður los í liðböndum sem halda grindinni venjulega í föstum skorðum, til að undirbúa sig fyrir stækkun barnsins og fæðinguna.
Mér finnst líklegt að þú sért að finna fyrir þessum áhrifum í lífbeininu. Oft ágerast þessi einkenni eftir því sem meðgöngunum fjölgar og einnig eftir því sem líður á meðgönguna. Það að þér finnist kynfærin þrútin þegar þessi verkur kemur tengist sennilega bara auknu blóðflæði á svæðinu, þegar þarna er einhver erting.

Þú ættir því að fara varlega í hlaup og þær æfingar sem þér finnst framkalla þennan verk og reyna að finna þér aðra hreyfingu sem hentar betur. Þetta er svo sem ekki hættulegt, en gæti versnað ef þú ofgerir þér.

Með bestu kveðju,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
27. mars 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.