Víkkun á nýrnaskálum

27.04.2007

Sælar og takk fyrir góðan og upplýsandi vef!

Ég var að koma úr 20 vikna sónar og allt kom mjög vel út nema það var stækkun á annarri nýrnahettunni (eða nýranu, veit ekki alveg hvort). Ég á að koma aftur við 32 vikur í sónar til að athuga hvort að þetta hafi gengið til baka. Mér fannst ljósmóðirin sem var að skoða mig ekki skýra þetta nógu vel út. Ég veit ekki hvað þetta þýðir - er þetta vísbending um einhvern sjúkdóm eða hvað? Maður verður nú pínulítið hrædd þegar manni er sagt að koma aftur í sónar seinna og það skiptir mig engu máli þó að þetta sé algengasta ástæðan fyrir því að konur þurfi að koma aftur í sónar (sem hún sagði nokkrum sinnum við mig). Er þetta hættulegt fyrir barnið?

Hvað gerist ef þetta gengur ekki til baka? Eða ef það stækkar meira?

Ein áhyggjufull verðandi móðir.


Sæl!

Væg víkkun á nýrnaskálum er mjög algeng við 20 vikur og er oftast vegna þess að þvagleiðarar eru óþroskaðir og linir og þvag fer til baka í nýrnaskálina. Þegar fóstrið stækkar og þroskast þá hverfur þetta oftast og er horfið við 32-24 vikur. Það eru vinnureglur á deildinni að ef þetta sést við 20 vikur er boðin ný skoðun til eftirlits við 32-24 vikur, ef það sést ennþá þá er barnið ómskoðað eftir fæðingu. Það er afar sjaldgæft að svona lítil víkkun sé vandamál. Ef þessar skýringar duga ekki má biðja um viðtal á Fósturgreiningardeild.

Kær kveðja,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri Fósturgreiningardeild LSH,
27. apríl 2007.