Spurt og svarað

10. janúar 2014

Vinna á meðgöngu og myglusveppur

Sælar og takk fyrir frábæran vef.
Var að velta fyrir mér hvenær væri ráðlagt að hætta að vinna. (Er komin 32.vikur) Ég minnkaði við mig niður í 80% fyrir fjórum vikum síðan og það gerði rosalega mikið fyrir mig en mér finnst ég bara vera komin með alveg nóg núna af vinnunni og langar bara helst til þess að hætta sem fyrst enda finnst mér ég eiga eftir að gera svo mikið áður en barnið kemur. Ég er að vinna með börnum og unglingum og mér finnst það taka rosalega mikið á því maður þarf alltaf að vera á tánum og það hefur gert það að verkum að ég fæ mikla samdrætti og oft verki með þeim sem ég tel reyndar vera fyrirvaraverki. En núna er ég búin að vera í góðu jólafríi og hef varla fundið fyrir samdráttum sem kannski segir manni það að maður þarf að fara að slaka á. Var reyndar að komast að því að það væri myglusveppur í vinnunni minni sem hefur verið að grassera í langan tíma, er það ekki varasamt?
kv, Sunna
Sæl vertu Sunna og takk fyrir bréfið.
Til hamingju með þungunina þína. Þú spyrð hvenær ráðlagt sé að hætta vinnu fyrir fæðingu. Við þeirri spurningu er ekkert eitt svar rétt. Venjan er sú að meta hverja konu fyrir sig með tilliti til starfs hennar og heilsu á meðgöngunni. Sumar konur geta eða vilja vinna eins lengi og þær mögulega geta, en algengt er að konur minnki við sig vinnu þegar líða tekur á meðgönguna, eins og þú hefur þegar gert.  Eru þær gjarnan sjúkraskrifaðar að hluta til, ef líðan og heilsa gefur tilefni til, þar sem hæpið er að ætla konu að vinna fulla vinnu út meðgönguna. Stundum er prófað að bjóða konum að hvíla sig frá vinnu í viku eða svo og sjá hverju það breytir með heilsuna. Þú nefnir einmitt líka að þér líði betur eftir hvíldina í jólafríinu þínu. Í framhaldi af slíkri hvíld er það svo metið í mæðraverndinni, í samráði við konuna, hvort rétt sé að sjúkraskrifa hana að hluta til eða alveg, eða hvort hún vilji eða geti unnið lengur. Gott er að kanna hver veikindaréttur hverrar og einnar konu er samkvæmt kjarasamningum, eða hvort sjúkradagpeningar fáist ef veikindaréttur er ekki til staðar.
Benda má á að í reglum fæðingarorlofssjóðs er gert ráð fyrir að byrja megi töku fæðingarorlofs mánuði fyrir fæðingu. Með því er verið að viðurkenna að það sé ekki  gert ráð fyrir að konur vinni fram á síðasta dag meðgöngunnar. Einnig er gott að hafa í huga að réttur til fæðingarorlofs er háður vinnuframlagi síðustu mánaða eins og reglur sjóðsins segja til um. Það er því mikilvægt að fá veikindavottorð þegar heilsan leyfir ekki að vinna að hluta til eða allan daginn svo réttur til orlofs tapist ekki eða skerðist.  Slík vottorð gefa læknar út, en sjálfsagt er fyrir þig að tala við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni og fá hana til að leiðbeina þér með framhaldið og vísa þér til læknis. Einnig getur þú líka talað við heimilislækninn þinn ef þú hefur slíkan.

Hvað varðar spurningu þína um myglusvepp þá er vitað að hann hefur ekki góð áhrif á heilsu eins eða neins. Á vef Umhverfisstofnunar eru upplýsingar um myglusvepp og þar eru einnig svör við nokkrum algengum spurningum um áhrif hans og meðferð. Þar er líka bent á að hafa megi samband við heilbrigðiseftirlitið á hverjum stað með tilliti til þess að meta hvort húsnæði sé heilsuspillandi. Ég hvet þig eindregið til að kynna þér þessar leiðbeiningar.
Gangi þér vel á lokasprettinum


Bestu kveðjur,
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir,
10. janúar 2014

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.