Spurt og svarað

20. apríl 2015

Bjúgur í andliti

Sælar, Ég er gengin rúmlega 30 vikur og er búin að eiga við vandamál að stríða sem seinustu vikur sem ofnæmislæknirinn hefur skilgreint sem ,,Ofsa bjúg" sem lýsir sér þannig að ég bólgna öll upp í andlitinu á 1-3 dögum, gerist yfir nóttu og það mikið að ég hef þurft að leita niður á bráðamóttöku þrisvar sinnum og hef einnig heimsótt heimilislækni nokkru sinnum. Enginn virðist almennilega vita hvað er að mér en eitt skiptið var ég það slæm að ég varð þreföld í kinnum og á vörum, talandinn breyttist, ég gat ekki borðað vegna bólgu og var einnig með sárindi í slímhúð munnsins. Það hafa verið teknar allar helstu blóðprufur, ofnæmispróf og hálsinn speglaður, en enginn skýring finnst á þessu. Eina ráðið sem læknarnir hafa er að moka í mig ofnæmissterum til að ná bjúgnum eða bólgunni niður og láta mig taka ofnæmislyf daglega sem gera lítið. Svona hefur þetta verið seinustu 6 vikunnar og er ég orðin ansi þreytt og ósátt. Eina hugsanlega skýringin sem ég hef fengið á þessu öllu er sú að ofnæmiskerfið getur verið lélegra á meðgöngu og ég sé viðkvæmari, en fyrir hverju er hreinlega ekki vitað. Er þetta eitthvað sem þið hafið heyrt um áður eða kannist við á meðgöngu? Ég er alveg miður mín yfir þessu því þegar ég verð það slæm þá líður mér bæði illa í andlitinu þar sem ég verð hálf aum. Á erfitt með að borða mat sem eitthvað bragð er af vegna særinda og vil ekki láta sjá mig á almannafæri þar það sést greinilega framan í mér að það er eitthvað að. Með fyrirfram þökk um góð ráð.

 
 Heil og sæl, já þetta er erfitt og leiðinlegt vandamál sem þú ert að glíma við. Það kemur ekki fram í bréfinu þínu hvort þú ert búin að tala um þetta ástand í mæðraverndinni við lækni þar og ljósmóður. Ég kannast ekki við að þetta sé eitt af þeim kvillum sem hrjá konur á meðgöngu. Að vísu er algengt að fá bjúg en ekki með þessum hætti sem þú lýsir. Bjúgur í andliti getur bent til meðgöngueitrunar en það eru mörg önnur einkenni sem fylgja því ástandi og það hlýtur að vera búið að útiloka það í þínu tilfelli. Gangi þér vel og vonandi færðu bót á þínum vanda sem fyrst.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkruanrfræðingur
20. apríl 2015
 
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.