Spurt og svarað

09. ágúst 2012

Vinna á tannlæknastofu á meðgöngu

Sæl
Ég er að vinna sem aðstoðarkona tannlæknis en langar að verða ófrísk. En ég var að velta því fyrir mér hvort það sé hættulegt fyrir fóstur að vinna á svoleiðis vinnustað. Þá er ég að aðallega að pæla í röntgengeislunum? Við starfsfólkið förum alltaf bakið við vegg með teknar eru myndir.

 Sæl!
Ég spurðist fyrir hjá Geislavörnum ríkisins og hér er svar þeirra:

Konur á barnsburðaaldri sem vinna við jónandi geislun (eins og til dæmis við tannröntgentæki) eiga að fá sérstaka fræðslu hjá ábyrgðarmanni vinnustaðarins um hugsanleg skaðleg áhrif jónandi geislunar á fóstur og um mikilvægi þess að tilkynna vinnuveitanda fljótt um verði þær barnshafandi. Því á að vera hægt að leita upplýsinga og meiri fræðslu hjá ábyrgðarmanni.

Hámark árlegrar geislunar fyrir geislastarfsmenn (þ.m.t. fólk sem vinnur við tannröntgentæki) er 20 mSv/ári. Þrátt fyrir það þá eru mörk fyrir barnshafandi konur sem starfa við jónandi geislun, þau sömu og fyrir almenning (eða 1 mSv/ári). Geislun frá venjulegum tannröntgentækjum í notkun er ekki mikil.  Geislavarnir fylgjast með geislun um 40 starfsmanna tannlæknastofa sem vinna við tannröntgentæki (eins og sjá má í skýrslum Geislavarna http://www.gr.is/stofnunin/skyrslur/). Nánast engir þeirra hafa mælst með aukna geislun á síðustu árum og þeir fáu sem hafa mælst með aukna geislun hafa mælst með kringum 0,1 mSv sem er töluvert undir mörkum fyrir almenning og barnshafandi konur.

Því ætti barnshafandi konum að vera óhætt að vinna á tannlæknastofum, þar sem tannröntgentæki eru notuð, svo lengi sem öllum öryggisreglum sé fylgt og vinnuaðstæður eru þannig að geislaálag fósturs verði eins lítið og unnt er með skynsamlegu tilliti til aðstæðna sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 627/2003.

 

Vona að þetta svari vangaveltum þínum.

Kær kveðja,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. Ágúst 2012

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.