Spurt og svarað

22. mars 2011

Vítamínvatn

Góðan daginn!

Núna er voðalega vinsælt að drekka vítamínvatn og til eru nokkrar tegundir sem innihalda mismunandi vítamín, sum innihalda guarana og annað. Mig langar að vita hvort að það sé óhætt fyrir ófrískar konur að drekka svoleiðis vatn?

Með von um svör.


Góðan daginn!

Vítamínvatn er í raun bara vítamín í vökvaformi svo það gildir það sama um það og önnur vítamín á meðgöngu. Almenna ráðleggingin er sú að mæla með inntöku fólínsýru 400 µg fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar og svo þurfa flestar að taka inn D-vítamín en það má t.d. fá með því að taka inn lýsi eða lýsisperlur. Hæfilegur skammtur er 1 teskeið af þorskalýsi á dag. Kona sem borðar fjölbreytta fæðu ætti ekki að þurfa önnur vítamín nema ef til vill járn ef mælingar á blóðrauða reynast lágar. Ef hins vegar einhverja fæðuflokka vantar í daglega neyslu þarf að skoða það sérstaklega og bæta það þá upp með vítamínum. 

Það er mismunandi innihald í hverri tegund og hverri bragðtegund af vítamínvatni, sumar innihalda mikið koffein (um 350 mg í 500 ml) og sumar innihalda gurana. Barnshafandi konur ættu að miða við að neyta ekki meira en 200 mg af koffeini á dag og ættu ekki að neyta gurana vegna þess hve mikið koffein er í því.

Stöku flaska af vítamínvatni sem ekki inniheldur meira en ráðlagða dagskammta af vítamínum, koffein eða gurana ætti að vera í góðu lagi. Það er því gott að lesa vel innihaldslýsingar.

Vítamínkveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22.mars 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.