Voltaren krem

12.12.2012
Sælar og takk fyrir fróðlegan vef.
Var að velta fyrir mér hvort óhætt væri að nota voltaren krem á meðgöngu? Er komin 23 vikur og hnéð á mér búið að vera að stríða mér núna í þó nokkurn tíma. Ég hef heyrt það frá kvensjúkdóma og fæðingalækni að inntaka bólgueyðandi lyfja sé í lagi nema á síðasta þriðjungi meðgöngu en þar sem allir heimilislæknar virðast mæla eindregið gegn því að þau séu notuð alla meðgönguna þá er ég skíthrædd við þetta. Er búin að prófa að ég held allt annað til að laga hnéð og þess vegna er ég að spá í þessu. Fer ekki minna yfir fylgjuna af þessum efnum ef þau eru notuð staðbundið heldur en ef þau eru tekin í töfluformi?
Bestu kveðjur, LindaSæl Linda
Varðandi inntöku bólgueyðandi lyfja á meðgöngu gildir það sem kvensjúkdóma og fæðingalæknar hafa talað um. Það er rétt hjá þér að minna fari yfir fylgju þegar lyf eru notuð staðbundið á húð en í töfluformi. Samt sem áður ætti að forðast notkun á þriðja þriðjungi meðgöngunnar þ.e. eftir viku 27 því það fer alltaf eitthvað magn lyfsins yfir fylgju og getur valdið barninu skaða.
Ég mæli með að þú ráðfærir þig við þína ljósmóður og e.t.v. fá viðtal hjá heimilislækni í gengnum mæðraverndina áður en þú byrjar að nota Voltaren kremið.
Gangi þér vel með stríðna hnéð.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. Desember 2012