Vont bragð í munni

08.05.2014

Góðan daginn Kærar þakkir fyrir frábæran og upplýsandi vef!
Ég er gengin 10 vikur með mitt annað barn :) Mig langar að spyrja um hvort þið hafið heyrt um stanslaust óbragð í munni, á meðgöngu? Mér er óglatt allan sólarhringinn (kasta þó ekki upp) þannig að matarlystin er frekar lítil fyrir. Það er alveg sama hvað ég borða, hvort ég bursta tennur eða fæ mér tyggjó. Þegar ég er búin að borða/bursta tennur kemur þetta óbragð, sem gefur eiginlega meiri velgju fyrir vikið og minnkar matarlystina enn frekar. Hélt á tímabili að ég væri jafnvel með "pine mouth" eftir að hafa borðað furuhnetur, en finnst það samt frekar ólíklegt. Ég prófaði að "googla" aðeins og fann enskar spjallsíður þar sem mælt var með að blanda matarsóda í vatn og skola munninn með því, og jafnvel kyngja 2-3 sopum. Er það í lagi? Mig minnir að ég hafi aðeins fundið fyrir þessu á síðustu meðgöngu, en alls ekki svona sterkum einkennum. Kannist þið við þetta? Kunnið þið ráð við þessu? Bestu kveðjur :)Sæl vertu og takk fyrir bréfið þitt.
Til hamingju með þungunina þína. Vonandi er þér farið að líða aðeins betur.
Á síðu
Heilsugæslunnar er ágætt yfirlit um ýmsar breytingar sem verða á líkamanum í tengslum við meðgönguna. Þar segir meðal annars: „Stundum finna konur óbragð í munni, járn- eða málmbragð. Einnig getur bragð breyst, það sem áður bragðaðist vel er nú jafnvel vont. Sumar konur fyllast löngun í bragð/mat sem þær eru ekki vanar að borða eða þykja góður." Það virðist lítið við þessu að gera, eins og þú nefnir sjálf. Matarsódi í litlu magni er í lagi, til að slá á brjóstsviða og óþægindi frá meltingarfærum, og virkar oft ágætlega, rétt eins og sódavatn gerir líka.
Ég ráðlegg þér að spyrja ljósmóðurina og lækninn í mæðraverndinni nánar út í þessi einkenni þín. Gangi þér vel.

 Bestu kveðjur,
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir,
8. maí 2014.