Vöntun á upplýsingum

21.02.2007

Ég veit nú ekki hvort þetta sé réttur vettvangur til að kvarta á en læt þetta „gossa“.

Mér finnst vera ótrúlega litlar upplýsingar að finna um hvernig t.d fæðingarferlið er, hvernig móttöku kvenna er háttað á kvennadeild nú eða á Hreiðrinu, við hvernig aðstöðu má búast og fleira.Vantar allar upplýsingar um hvaða þjónustu má búast við og hvert er hægt að leita. Engar íslenskar bækur eru til um meðgöngu og fæðingu, nema þá ljósmyndabækur, í bókabúðum, nema þá ef vera skyldi úreltar bækur á bókasöfnum, svo ekki sé nú minnst á óuppfærðar vefsíður með löngu úreltum upplýsingum sem eiga ekki við. Takmarkaðar upplýsingar frá fagaðilum og stofnunum, t.d. vefsíða LSH virðist reyna að koma sem fæstum orðum um starfsemi sína og þeir geta. Tilfinningin er sú að best sé að verðandi mæður séu óvitandi um ferlið og réttindi sín, því manni blöskrar hvernig staðið er fræðslu fyrir verðandi foreldra.

Fræðslan er takmörkuð á öllum sviðum; lesefni, vefsíðum, foreldrafræðslu og í mæðravernd.


Hæ, hæ og takk fyrir að leita til okkar!

Það er leitt að heyra þetta, ég hélt að þetta væri ekki svona slæmt.

Mig langar að benda þér á að leita til þinnar ljósmóður því hún ætti að geta svarað spurningum og veitt ykkur fræðslu eftir þörfum. Einnig ætti hún að geta bent þér á hvar er að finna upplýsingar.

Mig langar að nota tækifærið og benda þér á upplýsingaveitur sem ef til vill geta gagnast þér:

Bæklingur um Kvennasvið LSH, þar eru t.d. upplýsingar um Fæðingardeildina og Hreiðrið. Einnig upplýsingar um „Opið hús“ en hægt er að bóka sig í „Opið hús“ bæði í Hreiðri og á Fæðingardeild til að kynnast aðstöðunni og fá upplýsingar.

Bókin Upphafið eftir Huldu Jensdóttur kom út fyrir nokkrum árum og er í fullu gildi ennþá.

Bókin Pabbi - Bók fyrir verðandi feður er einnig frekar nýleg.

Flestar heilsugæslustöðvar bjóða upp á foreldrafræðslunámskeið en þú ættir einnig að geta fengið upplýsingar um það hjá ljósmóðurinni þinni.

Ég vona svo að þú getir nýtt þér það sem við höfum upp á að bjóða og ef þú finnur ekki svarið hér á síðunni þá er bara um að gera að senda okkur fyrirspurn.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. febrúar 2007.