Xalatan og Fotil Forte

27.10.2006

Takk fyrir frábæran vef!

Ég er gengin með tæpar 6 vikur og þarf að nota augndropa (fyrst Xalatan og nú Fotil forte) vegna hækkaðs augnþrýstings. Á upplýsingaseðlunum sem fylgja þessum lyfjum er tekið fram að þungaðar konur eigi ekki að taka lyfið nema í samráði við lækni. Augnlæknir minn veit af ástandi mínu en mig langar að vita hverjar líkurnar séu fyrir því að baunin mín verði fyrir einhverjum skaða af notkun þessara lyfja.

Kveðja, ein ráðvillt.


Sæl og blessuð!

Ég get því miður ekki sagt þér neitt til um líkur á fósturskaða. Einu upplýsingarnar sem ég hef eru úr Sérlyfjaskránni og læt ég þær fylgja hér með.

Xalatan
Öryggi við notkun þessa lyfs hjá þunguðum konum hefur ekki verið staðfest. Lyfhrifin geta hugsanlega verið skaðleg hvað varðar meðgöngu, fóstur og nýbura. Því ætti ekki að nota Xalatan á meðgöngu.

Fotil Forte
Betablokkarar geta valdið hægum hjartslætti hjá fóstrum og nýfæddum börnum. Á meðgöngu og við fæðingu þarf því að gæta varúðar og meta gagnsemi fyrir móður til móts við hugsanlegar hættu fyrir barnið.

Það er alltaf þannig með lyfjanotkun á meðgöngu að vega þarf og meta þann ávinning sem er fyrir móður til móts við þá áhættu sem er fyrir fóstrið. Því miður þá eru ekki til nægjanlegar upplýsingar um mörg lyf sem konur þurfa að taka á meðgöngu. Ef til vill þekkir augnlæknirinn þinn betur til þessara lyfja og því hvet ég þig til að hafa samband við hann og spyrja nánar út í þetta.

Gangi þér vel.

yfirfarið 28.10.2015