Spurt og svarað

02. maí 2011

Bjúgur, miklu meiri á hægri fæti

Hæ!

Ég er að skríða í 36 vikurnar og er með rosalegan bjúg sem nær stundum alveg upp í nára. En er misjöfn eins og dagarnir eru nú margir. Ég drekk rosalega mikið vatn en finnst það ekkert beint koma í veg fyrir þetta.

Aðal áhyggjuefnið er það að ég er stundum með smá bjúg í vinstri fæti en svo er hægri fóturinn á mér tvöfaldur upp í nára af bjúg. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?


Sæl og blessuð!


Flestar konur finna fyrir einhverjum bjúg á meðgöngu og oftast er bjúgur saklaus og eðlilegur fylgikvilli meðgöngunnar. Bjúgurinn sest oftast á hendur og fætur en getur líka komið í andlit. Bjúgurinn kemur vegna þess að vökvi færist úr æðakerfinu og sest inn á milli fruma.

Bjúgur getur þó verið merki um alvarlegri fylgikvilla, t.d. bjúgur sem kemur mjög skyndilega og/eða er mjög mikill getur verið einkenni meðgöngueitrunar og því þarf að skoða það nánar sem allra fyrst.

Þú nefnir að hægri fóturinn á þér sé tvöfaldur af bjúg. Þetta getur verið einkenni um blóðtappa í hægri fæti og þess vegna ættir þú að láta skoða þetta betur strax í dag. Þú skalt hafa samband við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni.

Þegar blóðtappi myndast eru yfirleitt eingöngu einkenni frá öðrum fætinum og þau geta verið eftirfarandi:

 • Roði, hita og bólga
 • Bólga í öllum fætinum eða hluta hans
 • Verkur og/eða eymsli, kannski finnst bara verkur eða eymsli við að standa eða ganga, stundum er eingöngu þyngslatilfinning í fætinum

Það getur komið fyrir alla að fá blóðtappa en barnshafandi konur eru í 10 sinnum meiri hættu á að fá blóðtappa en konur á sama aldri sem ekki eru barnshafandi og því er vert að vera vakandi fyrir einkennunum. Þessi aukna áhætta er tengd breytingum sem verða í líkamanum á meðgöngunni er til staðar alla meðgönguna og í 6 vikur eftir fæðingu.

Ýmsir þættir getið svo aukið áhættuna enn frekar:

 • Hafa áður fengið blóðtappa
 • Segamyndunarhneigð (sjúkdómur sem veldur því að blóðið hefur frekar tilhneigingu til að storkna
 • Aldur >35 ára
 • Offita, líkamsþyngdarstuðull yfir 30
 • Tvíbura- eða fjölburameðganga
 • Alvarleg meðgöngueitrun
 • Keisaraskurður
 • Rúmalega eða hreyfingarleysi t.d. eftir aðgerð eða þegar ferðast er lengi
 • Reykingar

Ég vona að það sé allt í lagi hjá þér en það er vissara að skoða þetta nánar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. maí 2011.


Heimild: http://www.rcog.org.uk/womens-health/clinical-guidance/venous-thrombosis-pregnancy-and-after-birth

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.