Bjúgur, miklu meiri á hægri fæti

02.05.2011

Hæ!

Ég er að skríða í 36 vikurnar og er með rosalegan bjúg sem nær stundum alveg upp í nára. En er misjöfn eins og dagarnir eru nú margir. Ég drekk rosalega mikið vatn en finnst það ekkert beint koma í veg fyrir þetta.

Aðal áhyggjuefnið er það að ég er stundum með smá bjúg í vinstri fæti en svo er hægri fóturinn á mér tvöfaldur upp í nára af bjúg. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?


Sæl og blessuð!


Flestar konur finna fyrir einhverjum bjúg á meðgöngu og oftast er bjúgur saklaus og eðlilegur fylgikvilli meðgöngunnar. Bjúgurinn sest oftast á hendur og fætur en getur líka komið í andlit. Bjúgurinn kemur vegna þess að vökvi færist úr æðakerfinu og sest inn á milli fruma.

Bjúgur getur þó verið merki um alvarlegri fylgikvilla, t.d. bjúgur sem kemur mjög skyndilega og/eða er mjög mikill getur verið einkenni meðgöngueitrunar og því þarf að skoða það nánar sem allra fyrst.

Þú nefnir að hægri fóturinn á þér sé tvöfaldur af bjúg. Þetta getur verið einkenni um blóðtappa í hægri fæti og þess vegna ættir þú að láta skoða þetta betur strax í dag. Þú skalt hafa samband við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni.

Þegar blóðtappi myndast eru yfirleitt eingöngu einkenni frá öðrum fætinum og þau geta verið eftirfarandi:

 • Roði, hita og bólga
 • Bólga í öllum fætinum eða hluta hans
 • Verkur og/eða eymsli, kannski finnst bara verkur eða eymsli við að standa eða ganga, stundum er eingöngu þyngslatilfinning í fætinum

Það getur komið fyrir alla að fá blóðtappa en barnshafandi konur eru í 10 sinnum meiri hættu á að fá blóðtappa en konur á sama aldri sem ekki eru barnshafandi og því er vert að vera vakandi fyrir einkennunum. Þessi aukna áhætta er tengd breytingum sem verða í líkamanum á meðgöngunni er til staðar alla meðgönguna og í 6 vikur eftir fæðingu.

Ýmsir þættir getið svo aukið áhættuna enn frekar:

 • Hafa áður fengið blóðtappa
 • Segamyndunarhneigð (sjúkdómur sem veldur því að blóðið hefur frekar tilhneigingu til að storkna
 • Aldur >35 ára
 • Offita, líkamsþyngdarstuðull yfir 30
 • Tvíbura- eða fjölburameðganga
 • Alvarleg meðgöngueitrun
 • Keisaraskurður
 • Rúmalega eða hreyfingarleysi t.d. eftir aðgerð eða þegar ferðast er lengi
 • Reykingar

Ég vona að það sé allt í lagi hjá þér en það er vissara að skoða þetta nánar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. maí 2011.


Heimild: http://www.rcog.org.uk/womens-health/clinical-guidance/venous-thrombosis-pregnancy-and-after-birth